145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

túlkun reglna um hagsmunaskráningu þingmanna.

[15:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp einmitt til þess að ræða fundarstjórn forseta og það sem ég greini sem nýjan tón í fundarstjórn forseta og mér finnst einstaklega jákvætt og ætti að vera til eftirbreytni. Forseti leggur sig fram við að svara þeim spurningum sem koma upp undir þessum lið fyrir sinn hatt, eins langt og það nær og samkvæmt vitneskju sinni. Svona á auðvitað að gera þetta. Ég vona að stjórnarliðar og allir aðrir sem fylgjast með sjái að þetta er í hinum almennu kringumstæðum sem við erum í í pólitíkinni eina rétta leiðin; að reyna að tala skýrt, svara spurningunum, eiga samtalið. Það má líka telja hæstv. nýjum forsætisráðherra það til tekna að eitt það fyrsta sem hann gerði var að halda fund með formönnum flokkanna. Ég vona að þetta sé vísbending, og ég vil vera hvetjandi í ummælum mínum í ræðustól, um að menn séu að átta sig á því í þessum kringumstæðum: Ekki fara (Forseti hringir.) þessa leið sem hefur svo oft verið farin á kjörtímabilinu að pakka bara saman einhvers staðar, tala ekki við neinn, (Forseti hringir.) láta ekkert ná í sig og skapa óvissu. Tölum saman. Svörum spurningum. Eyðum óvissu.