145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

túlkun reglna um hagsmunaskráningu þingmanna.

[15:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil sömuleiðis þakka forseta fyrir góð svör varðandi hagsmunaskráninguna og fyrirheit um að farið verði yfir hana til þess að skýra hana ef efni standa til.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að tilburðir til að túlka reglurnar á þann veg að staðið hafi til að gera greinarmun á því hvort hagsmunir manna lægju í félögum í atvinnurekstri eða fjárfestingum eða eignarhaldsstarfsemi séu fráleitir.

Í öðru lagi vil ég segja að það hlýtur að vera þannig að ef upp koma rökstuddar grunsemdir um brot á réttri skráningu þá verður að taka það til alvarlegrar skoðunar, rannsaka það, því að annars væru reglurnar merkingarlausar — ef það gerðist ekkert — ef fyrir lægi að þingmenn, ég tala nú ekki um ráðherrar, hefðu ekki sinnt réttri skráningu.

Þessar reglur eru í eðli sínu lágmarksreglur. Það liggur í hlutarins eðli. Það er ekkert sem bannar þingmönnum að veita ítarlegri upplýsingar eins og við þingmenn VG höfum gert frá byrjun, frá stofnun þess flokks. Á heimasíðu flokksins höfum við birt miklu ítarlegri upplýsingar um tekjur okkar, eignir og hagsmunatengsl.

Að lokum um óvissuna, herra forseti. (Forseti hringir.) Þessi ríkisstjórn sem taldi mikilvægt að hún starfaði áfram í einhverja mánuði til þess að eyða óvissu — það er óðum að snúast upp í andhverfu sína. Óvissan hefur aldrei verið meiri en eftir að hún tók til starfa.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna