145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Í allri umræðunni um að allt sé í kaldakoli er rétt að fara lauslega yfir niðurstöður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem dvalið hefur hérlendis síðustu vikurnar og kynntar voru í gær. Þar segir að ótvíræður árangur hafi náðst í efnahagslífinu, viðlíka hagvöxtur hafi ekki mælst síðan fyrir bankakreppu en hvíli nú á mun styrkari stoðum. Til grundvallar liggi fjölgun ferðamanna sem styðji við hagvöxt og skapi gjaldeyristekjur.

Afnám hafta af slitabúum gömlu bankanna var nýlega framkvæmt af leikni, eins og AGS orðar það, þar sem tókst að verja gjaldeyrisvarasjóðinn, lágmarka lögfræðilega áhættu og skapa um leið hvalreka fyrir ríkissjóð. Kjöraðstæður hafi skapast fyrir ný skref í afnámi fjármagnshafta.

AGS segir að útlit sé fyrir áframhaldandi góðan árangur í efnahagslífinu og að hagvöxtur stefni í 2,5% til meðallangs tíma. Mesta áhættan gæti verið önnur kollsteypa eftir ofþenslu. Þannig er eindregið varað við auknum útgjöldum ríkissjóðs þrátt fyrir þrýsting fjölmargra hópa í þjóðfélaginu þar um. Það geti leitt til vaxtahækkana og skaðað samkeppnishæfni landsins.

AGS bendir á að heildstæð lög um opinber fjármál komi á heppilegum tíma til að viðhalda aga í ríkisfjármálunum. Ekki má hvika frá ákvörðun um að leggja til hliðar framlög slitabúanna. Yfirlýsing Alþjóðagjaldeyrissjóðsins staðfestir það sem stjórnarflokkarnir og ráðherrar þeirra hafa alltaf haldið fram, staða þjóðarbúsins hefur sjaldan verið betri, verðbólga er í sögulegu lágmarki, atvinnuleysi er mjög lítið, skuldastaða ríkissjóðs hefur ekki verið betri í hálfa öld og hagvöxtur er meiri en í flestum vestrænum löndum.

Ríkisstjórnin stendur sterk þrátt fyrir fullyrðingar um annað. 38 þingmenn greiddu atkvæði gegn vantrausti á föstudag. (Gripið fram í.) Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar frá 8. apríl sem er nýjasta könnunin (Forseti hringir.) sem gerð hefur verið hafa stjórnarflokkarnir ekki einu sinni tapað fylgi síðustu viku, þ.e. frá því að stóra málið kom upp. (Gripið fram í.) Þvert á móti hafa stjórnarflokkarnir aukið við fylgi sitt. Það eru staðreyndir málsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) [Kliður í þingsal.]


Efnisorð er vísa í ræðuna