145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

störf þingsins.

[15:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Sjálfstæðisflokkurinn auglýsir í skugga Panama-hneykslisins, ríkisstjórnarskipti eiga sér stað, að ótvíræður árangur hafi náðst í efnahagslífinu. Sendinefnd AGS er hér stödd og segir sjóðurinn að rétt sé að stíga skref til afnáms hafta með því að leysa út aflandskrónurnar. Því eru allir sammála. Sú vinna hófst á síðasta kjörtímabili. Í yfirlýsingu sjóðsins segir að til grundvallar núverandi hagvexti liggi fjölgun ferðamanna sem er auðvitað stóra breytan í þessu öllu, en að margar breytur geti leitt til að hlutirnir geti farið á verri veg og hætta sé á ofþenslu. Við þekkjum líka áhrifavald eins og lækkun olíuverðs. Ríkisstjórnin lætur eins og sá árangur sem nú hefur orðið sé sér að þakka sem er auðvitað bara langt í frá.

Ríkisstjórnin hefur afsalað sér tekjum upp á 40, 50 milljarða að lágmarki og einskiptisaðgerðir eins og stöðugleikaframlagið, tímabundinn skattur á þrotabúin og arður frá bönkunum, eru ekki tekjur sem eru fastar í hendi. Aftur á móti hefur ríkisstjórnin veikt velferðarkerfið og lagt miklar álögur á almenning. Matarskatturinn, eru menn búnir að gleyma honum? Gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu, lægri barnabætur, lægri vaxtabætur, brotið á launþegum með styttingu atvinnuleysisbótatímabilsins svo eitthvað sé nefnt. Það er uppsafnaður vandi í samfélaginu. Innviðirnir eru sveltir. Samgöngubætur eru látnar sitja algjörlega á hakanum. Heilbrigðiskerfið er svelt. Framhaldsskólarnir sveltir. Síðan koma menn hér og hrósa sér og láta eins og það sé bara best að fá sem flesta skandala og hneyksli, við það styrkist ríkisstjórnin. Eru menn í raunheimi eða hvar eru menn staddir í þessari veröld? Nei, það er ekki allt sem sýnist. Það er engin innstæða fyrir að hreykja sér af efnahagsárangri sem byggist á því að veikja velferðarkerfið (Forseti hringir.) og ganga hart að kjörum almennings í landinu.


Efnisorð er vísa í ræðuna