145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

störf þingsins.

[15:51]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Störf þingsins hafa eðli málsins samkvæmt verið í nokkurri upplausn eftir það sem á undan er gengið með upplýsingum um að ráðherrar eigi félög í skattaskjólum, mestu fjöldamótmæli í Íslandssögunni, afsögn forsætisráðherra og stjórnarskiptum.

Lofað hefur verið að stytta kjörtímabilið um eitt löggjafarþing en ekkert togast upp úr hæstv. ríkisstjórn um hvenær ganga eigi til kosninga. Talað er um mikilvæg mál sem þurfi að klára en málaskráin virðist samt ekki vera til.

Alþingi er því í raun haldið í gíslingu framkvæmdarvaldsins. Þingið vantar forustu og verkstjórn en ekki loðin fyrirheit.

Meðan á þessu gengur þá gengur þjóðfélagið samt sinn gang. Ég vil nefna sem dæmi að í fréttum hefur komið fram að stórt land að Jökulsárlóni verði á næstu dögum slegið hæstbjóðanda. Jökulsárlón er án nokkurs vafa einhver frægasta og vinsælasta náttúruperlan okkar. Eignarhald á þessu landi er því mikið hagsmunamál bæði vegna ferðamannaiðnaðarins en þó enn frekar vegna náttúruverndar. Bæjaryfirvöld á Hornafirði hafa lýst miklum áhyggjum af því að nýir eigendur muni þrýsta á mikla uppbyggingu sem spillt gæti svæðinu.

Síðast í gær hvatti bæjarstjórinn til þess að ríkið eignaðist landið. Hér þarf að vinna hratt. Það þarf að meta hvort ekki sé hreinlega réttast að taka landið eignarnámi til að mynda á grunni 43. gr. náttúruverndarlaga, sem segir að ráðherra sé heimilt að taka eignarnámi lönd til að framkvæma friðlýsingu.

Stefna okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er í það minnsta skýr. Náttúruperlur eiga að vera almannaeign eftir því sem við verður komið.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna