145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

störf þingsins.

[15:53]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Eitt af hlutverkum þeirra sem gera stjórnmál að vettvangi starfs síns er að hlusta jafnt á máttugar sem vanmáttugar raddir almennings, enduróma skoðanir og hugsanir einstaklinga í samfélaginu. Ég ætla að gera það og deila með ykkur pistli sem kona skrifaði og sýn hennar á það ástand sem ríkir á Íslandi. Hún sagði, með leyfi forseta:

„Enn er ég hugsi. Nú lofa menn bót og betrun, reglum til að hindra stofnun aflandsreikninga, lofa að lesa betur reglur um skráningu eigna og lofa að setja reglur sem loka okkur öll inni, algjörlega háð því fólki sem hefur rakað til sín meiri hluta eigna og auðlinda sem til eru á Íslandi og láta enn greipar sópa. Ég er að hugsa um hvort ekki væri ráð að opna allt frekar en að loka, opna fyrir að ég og þú sem eigum ekki við það vandamál að stríða að eiga allt of mikið af peningum gætum fengið lán í erlendum bönkum og greitt upp verðbættu íslensku lánin, opna fyrir að við gætum tryggt hjá hvaða tryggingafélagi sem er í heiminum í stað þess að vera rígbundin íslensku tryggingafélögunum sem eru í eigu fólks sem sólundar bótasjóðum í útlöndum og mokar arði í stígvélin sín. Þannig losnum við frá samtryggingabandalagi ríkra á Íslandi sem greinilega raðar sínum mönnum í efstu sæti stjórnmálaflokkanna. Ég hef alltaf trúað því að ég eigi að styðja við íslenskt samfélag og hef verslað við íslenska aðila, en ég er efins eftir að hafa séð hvernig íslensk fyrirtæki hafa hlaupið með peningana mína til útlanda, en ég sit eftir með skitna krónu og borga hæstu vexti í Norður-Evrópu og hamast eins og hamstur á hjóli við að vinna fyrir hverri krónu til að láta enda ná saman og borga lánið, tryggingar og fleira sem fer í vasa þeirra sem hafa enga samvisku gagnvart íslensku samfélagi.“

Svo mörg voru þau orð, herra forseti. Þessi rödd talar eflaust fyrir munn margra sem hafa áttað sig á því að þau eru bara hamstrar á hjóli fyrir þá sem eiga peninga á Íslandi. Þessu verðum við að breyta í sameiningu og byggja upp samfélag sem byggir á jöfnum tækifærum fyrir alla en setur ekki fólk í tvo hópa eins og er svo sannarlega núna. Til þess að við getum gert það þá verðum við að ganga til kosninga og endurnýja (Forseti hringir.) umboð okkar sem starfa á Alþingi því það hefur algjör trúnaðarbrestur orðið í samfélaginu.