145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

störf þingsins.

[15:58]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Í lok gerningaviku stjórnmálanna í síðustu viku hlotnaðist mér sá heiður að fá að sitja Leiðarþing Átaks – félags fólks með þroskahömlun. Þar lofaði ég þeim hópi að ég vildi stoltur vera málsvari hans á Alþingi. Mér er það bæði ljúft og skylt. Af því tilefni langar mig til að lesa ályktun fundarins, með leyfi forseta:

„Leiðarþing fólks með þroskahömlun og aðalfundur Átaks álykta um aðgengi að samfélaginu á fundi.

Að hafa aðgang að samfélaginu er mikilvægt fyrir alla. Að lifa sjálfstæðu lífi og taka þátt eru mannréttindi. Á Íslandi er þetta ekki við lýði og fatlað fólk nýtur ekki þeirra lífsgæða að hafa fullan aðgang að samfélaginu. Ferðaþjónustan er takmarkandi, val um búsetu ekki til staðar fyrir alla, þjónustan skert, bætur eru litlar og við fáum ekki að eiga val um hvar við búum eða með hverjum. Þjónustan er oftar skert og oft sett á án samráðs við okkur. Því hvetjum við stjórnvöld, ríki og sveitarfélög til þess að virða og framfylgja sáttmálum, lögum og reglum sem eiga að veita okkur sömu réttindi og öðrum sem búa á Íslandi. Veita á fötluðu fólki stuðning sem getur leitt til aðgangs að samfélagi fyrir alla.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kemur skýrt fram að aðildarríkin skuli gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í samfélaginu á öllum sviðum, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, þar með talið upplýsinga- og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annarri aðstoð og þjónustu sem almenningi er opin eða látin í té bæði í þéttbýli og dreifbýli.

Þetta er ekki það sem við upplifum og því krefjumst við úrbóta, að stjórnvöld leggi sig fram við að innleiða og fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hér á landi og virði mannréttindi fatlaðs fólks. (Forseti hringir.) Ekkert um okkur án okkar eru orð sem við viljum að stjórnvöld og þeir sem fara með okkar mál virði alltaf þegar verið er að fjalla um okkar mál. Kallið okkur að borðinu. Við erum fullgildir borgarar og viljum að komið sé fram við okkur sem slík. Það eitt eykur aðgengi okkar að samfélaginu og veitir okkur réttarstöðu til jafns við aðra.

Leiðarþing Átaks – félags fólks með þroskahömlun.“

Ég tek undir þessar kröfur og óskir (Forseti hringir.) og hvet alþingismenn hvar í flokki sem þeir standa að gera það sömuleiðis.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna