145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

nauðsyn bættra fjarskiptatenginga og hagræn áhrif gagnavera.

690. mál
[16:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er verið að biðja um að hæstv. innanríkisráðherra láti gera heildræna úttekt á því hvort nauðsynlegt sé að leggja nýjan fjarskiptastreng til landsins og um hagræn áhrif gagnavera hér á landi.

Nágrannaþjóðir okkar, bæði Norðurlandaþjóðirnar og Írar, hafa lagt mikið á sig til að skapa þar umhverfi sem hentar fyrir þessa starfsemi meðan kröfuharðari viðskiptavinir og þeir aðilar sem á þessum málum hafa áhuga hafa ekki valið Ísland. Það hefur skilað sér í því að til dæmis á Írlandi hafa Microsoft, Amazon, Apple, Google og Facebook fjárfest eða upplýst um áform um að fjárfesta í gagnaverum sem samsvarar 60–120 milljörðum.

Gagnaver og innviðir þeirra eru undirstaða hátækniiðnaðar, netverslunar og netþjónustu. Ég vil vekja athygli á því (Forseti hringir.) af því að við ræðum oft minni mál að hér er um að ræða undirstöðu fyrir hátækniiðnaði og ég vona að við fáum góða skýrslu og góða umræðu um hana.