145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[16:45]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessi svör um skattaákvæði sem ekki er komið til framkvæmda við samsköttun hjóna eins og hér hefur komið fram. Í svörum hans við spurningu minni þykist ég hafa fengið þá staðfestingu að árið 2017 hefðu almennir skattgreiðendur í landinu sem hefðu fallið undir þetta sjónarmið greitt 3 milljörðum minna í skatt, færi þessi lagabreyting ekki í gegn. Þá er verið að taka þessa áætluðu skattalækkun sem ég hef engar sérstakar skoðanir á, hvort hún sé rétt eða röng, ég bara stoppaði við þegar ég heyrði þetta áðan, og ég vil leyfa mér að halda því fram enn þá, virðulegi forseti, að þarna sé ríkissjóður að hætta við að lækka skatta hjá þessu fólki um 3 milljarða og taka skattinn inn, þannig að það kemur á móti eins og hæstv. fjármálaráðherra segir til að minnka tekjuáhrif vegna tryggingagjaldsins. Þá er verið að hækka skatt árið 2017 um 3 milljarða á þeim sem hefðu fallið undir þessi ákvæði skattalaga. Það er því verið að fjármagna lækkun tryggingagjalds með því að leggja meira en áætlað var árið 2017 á þá einstaklinga sem falla hér undir. Nóg um það. Það er þá komið skýrt fram.

Hitt atriðið sem mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í — ég verð að játa að ég hef ekki áttað mig á því hvort hér er um nýmæli að ræða — er að ég tek eftir því að ekki er hefðbundið kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins aftast í frumvarpinu eins og maður hefur getað farið í gegnum, heldur er það liður númer 7 í mati á áhrifum. Það getur vel verið að í efnahags- og skattanefnd geti menn farið í gegnum þetta til að sjá breytingar og tekjuáhrif og hvaða áhrif þetta hefur í plús og mínus fyrir ríkissjóð, en ég spyr hæstv. fjármálaráðherra alveg eins og í fyrri spurningu minni, hvort (Forseti hringir.) við séum ekki sammála um þessa lækkun eða hækkun, um þetta atriði, hvort hér sé um nýmæli að ræða.