145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[16:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, við erum alveg sammála um það. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að ef við mundum láta lögin standa óbreytt hefðu skattarnir lækkað um 3 milljarða hjá þeim hópi sem er með efri meðaltekjur og hærri tekjurnar, það hefði einkum nýst honum. Við erum að segja að slíkar breytingar fari aftar í forgangsröðun og við leggjum meiri áherslu á tryggingagjaldið, við lækkum það um tæpa 7 milljarða á meðan þessi breyting hefði lækkað tekjur um 3 milljarða.

Ég held því jafnframt til haga að tekjuskatturinn lækkar líka um næstu áramót samkvæmt þegar lögfestum breytingum. Það gerist með því að miðþrepið fellur út um næstu áramót að óbreyttum lögum og skatturinn lækkar aftur. Við lækkuðum tekjuskattinn í tveimur þrepum, á þessu ári og upphafi næsta árs.

Ég tek undir með hv. þingmanni, það er miður að við höfum þurft að gera lagfæringar á áður samþykktum lögum. Við tökum ábyrgð á því í fjármálaráðuneytinu, en auðvitað hefur málið líka fengið nákvæma skoðun í þinginu og er miður að okkur skyldi ekki saman hafa tekist að átta okkur á þessu. Ein breytingin er í sjálfu sér alveg með öllu meinlaus vegna þess að hún hafði ekkert raunhæft gildi, það er bara lagahreinsun að því að fella hana út. Annað hafði skapað vissa óvissu sem við vildum eyða. Varðandi fólksflutningana og virðisaukaskattinn sem ég hef verið að fara yfir þá skiptir líka máli að skerpa línur. En ég verð líka að segja alveg eins og er að við höfum verið að gera feikilega miklar breytingar á virðisaukaskattskerfinu sem mjög mikil vinna hefur farið í og heilt yfir hefur það allt saman gengið mjög vel. Þetta eru minni háttar lagfæringar sem maður gat svo sem gert ráð fyrir að þyrfti að grípa til.