145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[16:49]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fjármála- og efnahagsráðherra ágætt frumvarp. Það er margt gott þarna á ferðinni, að ég tali nú ekki um lækkun tryggingagjalds sem margir eru búnir að sakna og hafa beðið lengi eftir. En það er eitt atriði hérna sem mig langar til að velta upp sem ég verð að viðurkenna að veldur mér aðeins vonbrigðum. Það er að falla frá samsköttun hjóna í efsta þrepinu. Ég velti fyrir mér hvaða hópar eru þarna helst undir. Jú, mér dettur helst í hug sjómenn. Eru það ekki helst sjómenn sem eru í hærri tekjum og þar sem makinn getur ekki unnið úti þar sem sjómaðurinn er ein fyrirvinnan? Nú vitum við að sjómenn eru í samningaviðræðum og horfir ágætlega í þeim málum. Er hæstv. ráðherra ekkert hræddur við að þetta verði ekki til að liðka til í þeim viðræðum? Nú vitum við að aðrir hópar eins og flugmenn og flugfreyjur sem eru við svipaðar aðstæður, þar sem er óreglulegur vinnutími og annar aðilinn vinnur utan heimilis, hafa skattfrjálsa dagpeninga, en sjómenn fá fæðispeninga greidda og þurfa að borga af þeim fullan skatt. Það er nýbúið að taka af þeim sjómannaafsláttinn. Er hæstv. ráðherra ekkert hræddur um að þetta auki á óánægjuna þar og spilli kannski fyrir samningaviðræðum milli sjómanna og útvegsmanna?