145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[16:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Að undanskildu frumvarpi um brottfall undanþágu fyrir slitabú fallinna fjármálafyrirtækja frá bankaskatti þá minnist ég þess ekki að hafa verið að mæla hér fyrir breytingum á lögum sem leiddu til hækkunar skatta. Vissulega höfum við látið krónutölugjöld á skatta fylgja verðlagi sum árin, en að uppistöðu til hef ég haft ánægju af því að koma hér í ræðustól og mæla fyrir skattalækkunum á fyrirtæki og almenning fyrst og fremst og umfram allt annað. Við höfum náð verulegum árangri í því.

Þessi tiltekna breyting sem við erum að ræða og hv. þingmaður spyr um hefur margt með sér og er ágæt. Þetta eru allt mjög gild sjónarmið sem eru hér færð fram. Við stöndum frammi fyrir því að þurfa að forgangsraða. Við náum ekki öllum okkar markmiðum í einu. Þegar við fórum að forgangsraða því hvernig við vildum skapa svigrúm fyrir einstök mál og ráðstafa því svigrúmi komumst við að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að breytingin hefði margt ágætt með sér, enda fékk hún meirihlutastuðning í þinginu eftir að hafa komið upp í störfum efnahags- og viðskiptanefndar og fengið góðan stuðning þar, hún var samþykkt á Alþingi fyrir ekki mörgum mánuðum, væri rétt að forgangsraða með öðrum hætti við þær aðstæður sem eru uppi núna í þjóðfélaginu, gríðarlega mikil kaupmáttaraukning, ekki síst hjá þeim sem mundu hafa notið góðs af þessari breytingu, þar með talið sjómönnum, og skapa svigrúm í ríkisfjármálaáætluninni fyrir lækkun tryggingagjaldsins. Þetta er ekki hafið yfir gagnrýni frekar en annað og sjálfsagt að ræða það frekar hvort einhver (Forseti hringir.) fleiri sjónarmið ættu erindi inn í umræðuna.