145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[16:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að það var margt sem mælti með sérstökum sjómannaafslætti á sínum tíma. Mér finnst sjálfsagt að það sé ákveðinn sveigjanleiki í skattkerfinu, en á sama tíma hef ég verið þeirrar skoðunar að best sé að vera með lága skatta og sem einfaldasta og sem fæstar undanþágur. Við sjáum það til dæmis af þessu dæmi hér að ef við vildum ná sérstaklega til sjómanna með því að hafa þessa millifærslu heimila mundum við í leiðinni ná til miklu stærri hóps. Við sjáum það líka að þó að góð rök séu fyrir því að taka tillit til þess hversu sérstakt eðli sjómannsstarfið hefur og þá einkum hjá þeim sjómönnum sem eru langtímum saman frá landi, þá má alveg finna aðrar stéttir sem það sama gildir um og hafa ekki notið sérstaks afsláttar. Þess vegna hef ég verið að færast á þá skoðun að við ættum að reyna að fækka undanþágum sem mest, þótt ég haldi því til haga að það kunni að þurfa að hafa einhverja sveigju í kerfinu, hafa skattana lága og leggja það einfaldlega á atvinnurekendur að greiða þau laun sem þarf og á með réttu að gera miðað við það álag og þá vinnu sem fylgir viðkomandi störfum. En það er ekkert svart/hvítt í þessu eins og gildir með svo mörg önnur mál hér.