145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti.

668. mál
[17:25]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil það sem svo að það eigi þá að túlka þennan fjárhagsvanda frekar þröngt. Ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið íhugað að í stað þess að hafa frádráttinn 30% af þeirri fjárhæð sem fjárfest er, og menn gætu þá í mesta lagi dregið 3 milljónir frá ef þeir kaupa fyrir 10 milljónir — það er ekki á allra færi að kaupa fyrir 10 milljónir. Það hefði kannski verið sanngjarnara gagnvart þeim sem eiga ekki mikið fé til að leggja í svona að hafa frádráttinn frekar 50% eins og er í Svíþjóð af kannski lægri fjárhæð til þess að tryggja að fleiri gætu tekið þátt.

Varðandi það að útiloka starfsmenn frá þessu finnst mér ekki gott. Oft er það mikilvægt fyrir starfsmenn að geta notið þess að vera meðþátttakendur í fyrirtækinu. Ég mundi gjarnan vilja vita hvort hægt væri að breyta út frá þessu eða hvort þetta sé líka krafa frá ESB.

Að lokum vildi ég nefna ákvæði varðandi sérfræðinga sem nú á samkvæmt þessu að gefa 25% afslátt frá sköttum í þrjú ár hafi þeir fram að færa einhverja þekkingu sem ekki er til hér nema í litlum mæli. Ég veit að þetta er gert annars staðar á Norðurlöndunum. Mér hefur alltaf þótt þetta orka mjög tvímælis. Vissulega er mikilvægt að fá góða þekkingu til landsins, en það er þá bara í höndum þeirra fyrirtækja sem sjá sér hag í því að gera það. Ríkið á ekki að taka að sér að niðurgreiða það með þessum hætti. Það að sérfræðingar sitji hlið við hlið, báðir með sjaldgæfa þekkingu og vinni í íslensku þekkingarfyrirtæki, og annar greiði 25% lægri skatta, mér finnst það ekki gott. Það mundi kannski vekja þau viðbrögð hjá hinum sérfræðingunum að drífa sig til Norðurlandanna til að njóta sömu fríðinda þar. Við gætum í rauninni verið að opna hér ormadós. Ef við viljum draga hingað til þekkingu, væri það ekki frekar þannig að við mundum draga hana frá ríkjum sem eru með góða menntun en bjóða kannski lág laun eins og kannski Indlandi þar sem er mjög vel menntað fólk sem mundi örugglega vilja koma hingað (Forseti hringir.) án þess að gera kröfur um skattafslátt?