145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

upplýsingar um skattskil.

[10:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Enn einn daginn í þessari viku hefjum við þingstörf í þeirri skrýtnu stöðu að vita ekki hver þau brýnu mál eru sem ríkisstjórnin sem nú situr var mynduð um né heldur að vita hvenær hún ætlar að efna fyrirheitið um að þjóðin gangi til kosninga á hausti komanda. Kannski er ágætt að ítreka til hæstv. fjármálaráðherra fyrirspurn þess efnis hvort hann geti glöggvað okkur eitthvað frekar um það hvenær við megum vænta þess, og þjóðin, að vita hvert erindi ríkisstjórnarinnar er og hvenær hún treystir sér til að hitta fólkið í landinu.

Aðalefni fyrirspurnar minnar er samt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um afstöðu til þess að forustumenn í stjórnmálum upplýsi um skattframtöl sín. Í gær átti hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra frumkvæði að því að birta ítarlegri upplýsingar um skattamál sín og maka síns en dæmi eru um af forustumönnum í stjórnmálum. Ég ákvað strax í kjölfarið að ræða það við konu mína hvort við ættum að fylgja í kjölfarið og taka undir þetta frumkvæði sem við ákváðum að gera og birtum í gær upplýsingar um sömu tvö ár, síðasta tekjuár og þarsíðasta.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé tilbúinn að fara að þessu fordæmi. Við höfum heyrt frá hæstv. forsætisráðherra að hann setti sem skilyrði fyrir því að upplýsa um raunveruleg skattskil vegna eignarhaldsfélaga að aðrir forustumenn í stjórnmálum gerðu slíkt hið sama. Eigum við kannski að bindast höndum saman um að birta þessar upplýsingar og kannski ekki bara fyrir þessi tvö ár, heldur líka fyrir öll þau ár sem máli skipta til að hægt sé að taka af allan vafa um að skattskil vegna aflandsfélaga í eigu forustumanna í stjórnmálum hafi verið með fullnægjandi hætti og í samræmi við opinberar yfirlýsingar þeirra sjálfra?