145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

upplýsingar um skattskil.

[10:38]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að við höfum kosið að búa til reglur um hagsmunaskráningu þingmanna. Það er líka alveg ljóst af reynslu undanfarinna daga að þær eru fullkomlega ófullnægjandi miðað við túlkun forustumanna ríkisstjórnarinnar á þeim. Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að hann sé tilbúinn að upplýsa um skattskil sín varðandi þessi aflandsfélög ef aðrir forustumenn í stjórnmálum gera það. Mér finnst svolítið skrýtið að hæstv. fjármálaráðherra sem segist ekkert hafa að fela um skattskil sín vegna aflandsfélags ætlar að vera skálkaskjól fyrir fyrrverandi forsætisráðherra í þessu efni.

Ætlar sem sagt Bjarni Benediktsson núna að koma til varnar Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni með því að birta ekki sínar upplýsingar? Í hvaða skollaleik erum við komin, virðulegi forseti? Er ekkert að marka yfirlýsingar um að menn hafi ekkert að fela? Er ekkert að marka yfirlýsingar um að menn geti komið hreint fram?