145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

upplýsingar um skattskil.

[10:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Er ekki ágætt að vera ekki að blanda öðrum inn í þetta mál? Það sem ég sagði hér er að ég mun bara fyrir mitt leyti meta þörfina fyrir frekari upplýsingagjöf til að fylgja eftir því sem ég hef sagt. Þá kemur bara í ljós hvernig það verður gert, mér finnst langbest að láta verkin tala.

Varðandi umræðuna almennt um það hvað forustumenn í stjórnmálum ættu að gefa af upplýsingum um þessi efni finnst mér ekki ósanngjarnt að gerðar séu sérstakar kröfur til þeirra sem eru í fyrirsvari fyrir til dæmis forsætisráðuneytið eða eftir atvikum fjármála- og efnahagsráðuneytið eins og við sjáum af umræðunni í öðrum löndum en þá má ekki gleyma því að í lögum eru nú þegar mjög ríkar og sérstakar kröfur lagðar á viðkomandi, t.d. um að þeir þiggi ekki (Forseti hringir.) laun vegna starfa á öðrum vettvangi en þeim sem þeir eru að sinna á þeim tíma.

Þessa umræðu er mikilvægt að taka af yfirvegun (Forseti hringir.) og það er ekki svo að ég sé að reyna að skapa einhverjum öðrum skjól. Ég ætla bara að meta það fyrir mig hvernig ég geri upp mína hluti alveg eins og hv. þingmaður hefur gert fyrir sig.