145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

skattundanskot alþjóðlegra stórfyrirtækja.

[10:41]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er á sömu slóðum í fyrirspurn minni varðandi Panama-skjölin. Ein umræða sem uppljóstrun Panama-skjalanna hefur vakið í Evrópu og víðar er um skattundanskot alþjóðlegra stórfyrirtækja. Í dag sáum við tölur til dæmis um umfang slíkra skattundanskota í Bandaríkjunum, mat frá Oxfam sem segir að þarna sé um 1,4 trilljón bandaríkjadala að ræða í skattundanskotum í Bandaríkjunum. Þetta er þannig tala að maður getur eiginlega ekki ímyndað sér hana. Það hlýtur að vera hægt að kaupa bæði sólina og mánann fyrir þá upphæð. En við höfum líka haft mjög sterkar vísbendingar hér á landi um skattundanskot alþjóðlegra stórfyrirtækja. Það hafa verið gerðir vandaðir fréttaskýringarþættir í Kastljósi um það sem leiða mjög sterkar líkur að því að stórfyrirtæki í áliðnaði á Íslandi skjóti hagnaði undan með því að flytja hann úr landi sem vaxtagreiðslur til tengdra fyrirtækja í skattaskjólum. Eftir áhorf slíkra þátta virðist þetta blasa við. Án þess að ég vilji fullyrða um það eru allavega sterkar vísbendingar um það.

Hyggst hæstv. ráðherra, eins og Evrópusambandið er að gera, eins og OECD er að gera, nota Panama-skjölin sem sérstakt tilefni til þess hér á landi að gera eitthvað í þeim málum? Til þess að koma í veg fyrir skattundanskot alþjóðlegra stórfyrirtækja á Íslandi? Þarf að breyta lögum um það? Til dæmis var vísað til ríkisstjórnarinnar frumvarpi sem tekur á þunnri eiginfjármögnun og frumvarpið liggur þar. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að breyta lagaumgjörðinni hvað það varðar? Hyggst ráðherra nýta sér heimildir í fjárfestingarsamningum (Forseti hringir.) sumra þessara fyrirtækja til að fara inn í bókhaldið og fá allt upp á borðið hvað varðar skattskil og hagnað þessara fyrirtækja? Hvernig hyggst hæstv. ráðherra beita sér í málinu?