145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

skattundanskot alþjóðlegra stórfyrirtækja.

[10:46]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Það er einmitt það ótrúlega í málinu að oft er um að ræða fyrirtæki sem hafa fengið mjög góða samninga en greiða ekki einu sinni samkvæmt þeim. Ég ætla ekki að fara í eitthvert skilgreiningarstríð við hæstv. ráðherra. Mér finnst bara ekki í lagi þegar stórfyrirtæki, einmitt með ívilnunarsamninga og jafnvel hagstætt orkuverð, greiða augljóslega hagnaðinn úr landi í formi vaxtagreiðslna á lánum til tengdra fyrirtækja í Lúxemborg. Ég hefði haldið að hæstv. ráðherra fyndist það heldur ekki í lagi.

En nú vil ég spyrja, vegna þess að hæstv. ráðherra er ráðherra fjármála og skatta og þessara málefna á Íslandi og það er alþjóðlegt samstarf í gangi um að taka á nákvæmlega þessu: Telur hæstv. ráðherra að hann njóti trúverðugleika í þessu samstarfi í ljósi mála sinna?

Mig langar líka að spyrja alveg heiðarlega og af einlægni: Er eitthvað í tengslum hæstv. ráðherra við aflandsfélög sem hann á eftir að segja okkur? Hafa allir skattar verið greiddir til dæmis af gjaldeyrishagnaði, ef einhver hefur verið? Hyggst ráðherra setja allt upp á borðið eins og (Forseti hringir.) kallað hefur verið eftir, einmitt til þess að njóta trúverðugleika í alþjóðlegu samstarfi gegn skattundanskotum t.d. stórfyrirtækja?