145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

skattundanskot alþjóðlegra stórfyrirtækja.

[10:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Fyrst um hegðun alþjóðlegra stórfyrirtækja. Við þurfum að tryggja að skatteftirlit á Íslandi, skattframkvæmdin sé þannig uppbyggð og fjármögnuð að menn hafi getu til að leita af sér allan grun um að allt sé uppi á borðum og sé eðlilegt. Það á meðal annars við um þau tilvik sem hv. þingmaður nefnir þar sem menn búa beinlínis til strúktúr eða einhvers konar fyrirkomulag innan fyrirtækjasamsteypu sem er sérstaklega ætlað til að hjálpa mönnum að komast hjá tilgangi laganna um að menn greiði skatta hér. Um þetta fjalla meðal annars milliverðlagsreglurnar sem við höfum verið að innleiða og sama gildir að vissu leyti um þunna eiginfjármögnun.

Varðandi trúverðugleikann er oft erfitt að gerast dómari í eigin sök. En það er einfaldlega þannig í mínu tilviki að allt hefur verið uppi á borðum gagnvart skattyfirvöldum. Það hefur aldrei verið ætlun mín að nýta umrædda fjárfestingu til að sveipa málið einhverri leynd. (Forseti hringir.) Því miður endaði það mál þannig að það gat aldrei komið til neinnar skattlagningar vegna þess að málið (Forseti hringir.) var gert upp með tapi. Þannig var það og í raun og veru (Forseti hringir.) ekkert meira um það að segja. (Forseti hringir.) Svarið við því hvort allt (Forseti hringir.) hafi verið sagt um það mál sem máli skiptir er já.