145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

fjárhagsstaða framhaldsskólanna.

[10:53]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Það er svo sem ágætt að fólk er farið að tala saman og milli ráðuneyta því þetta snýst nú um það líka. Óneitanlega er samt mjög sérstakt að það geti komið fyrir að skólar fái ekki rekstrarframlag til að sjá til þess að daglegt starf í skólum geti gengið með sómasamlegum hætti. Við verðum líka að horfast í augu við það að reiknireglan svokallaða sem hefur verið bitbein til fjölda ára er ekki í lagi. Við þurfum að taka á því. Ráðherrann svaraði því nú ekki þegar ég spurði hvers vegna svör hefðu ekki borist við því. Ég nefni að ársnemandi í Verkmenntaskólanum á Akureyri hækkar um 1,6% á milli áranna, en í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti um 5,7%, bara svo dæmi sé tekið, þetta eru sambærilegir skólar að mjög mörgu leyti. Við þurfum að fara ofan í það og sjá til þess að það sé gert.

Auðvitað er það svo að ef ríkið gerir kjarasamninga þá verður það að greiða í samræmi (Forseti hringir.) við kjarasamninga, greiða fyrir þá. Það er þar (Forseti hringir.) sem hnífurinn virðist standa í kúnni mjög víða í skólum (Forseti hringir.) landsins, líka hjá þeim sem reka sig (Forseti hringir.) innan heimilda, þeir segja samt: (Forseti hringir.) Við erum að skera allt annað niður.