145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

mál forustumanna stjórnarflokkanna í Panama-skjölunum.

[11:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í máli hæstv. fjármálaráðherra rétt í þessu kom fram að hann teldi best og eðlilegast að hér héldu hlutirnir bara áfram eins og þeir hafa verið. Ég hef ákveðna samúð með því að hæstv. fjármálaráðherra telji það eðlilegasta nálgun í því pólitíska fárviðri sem hér hefur verið að Sjálfstæðisflokkurinn haldi sínu striki og að fjármálaráðuneytið sé sett í þá stöðu að smíða kosningafjárlög fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem verði þá einhvers konar málefnaskjal inn í kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins. Það að telja það ásættanlegt lýsir með hvaða hætti hæstv. ráðherra og stjórnarflokkarnir ganga um Stjórnarráðið.

Hæstv. ráðherra hefur ítrekað talað um að enginn eigi að komast upp með skattsvik þrátt fyrir að hann sé sjálfur einn þeirra sem er að finna í Panama-skjölunum þar sem ríkir Íslendingar og félög þeirra hafa verið að koma eignum sínum í skjól, ýmist undan skattgreiðslum eða undan vitneskju almennings yfirleitt. Þetta er afleiðing og afurð af græðgisvæðingu, af því að eðlilegt þyki að svíkja undan skatti og stela í raun og veru frá almenningi.

Hér voru töluverðir umhleypingar í pólitíkinni í síðustu viku og fram hefur komið að Sjálfstæðisflokkurinn hafi talið óásættanlegt að fráfarandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, færi fyrir ríkisstjórninni með þeim afleiðingum að hann sagði sig frá embætti. Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra í hverju hann telji liggja muninn á eigin máli gagnvart Panama-skjölunum og máli hæstv. fráfarandi forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem enn er formaður Framsóknarflokksins.