145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

mál forustumanna stjórnarflokkanna í Panama-skjölunum.

[11:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það lýsir ákveðnu viðhorfi hjá hv. þingmanni að gefa sér að þegar menn tefla fram fjárlagafrumvarpi í aðdraganda kosninga séu það alltaf kosningafjárlög. Ég veit ekki hvort hæstv. fyrrverandi ráðherra er að deila einhverju með okkur af eigin reynsluheimi en ég minnist þess þegar vinstri flokkarnir sátu í ríkisstjórn í aðdraganda kosninganna 2009, þá var um að ræða minnihlutastjórn sem starfaði í febrúar, mars og apríl, og þá átti ekki að gera minna en að breyta stjórnarskránni — án samtals, án samráðs, án samtals við þjóðina, án samráðs við aðra stjórnmálaflokka á þinginu. Minnihlutastjórn í nokkrar vikur ætlaði að breyta stjórnarskrá Íslands. Sem betur fer varð ekkert úr þeim áformum á þeim tíma.

Það að tala um að ríkisstjórn sem hefur lýðræðislegt umboð og styðst við ríkan meiri hluta á þinginu brjóti einhverjar hefðir og venjur og fari fram úr sér með því að láta stjórnkerfið sinna sínum skyldum, m.a. þeirri skyldu sem á okkur hvílir að undirbúa fjárlagagerð fyrir næsta ár — það er mjög merkilegt að verða vitni að þessu, verða vitni að því að þá þyki hv. þingmanni eitthvað óeðlilegt á ferðinni. Þessi nálgun er alveg með ólíkindum.

Varðandi hin atriðin sem spurt er um vil ég bara segja að það væri fróðlegt að taka dálítið breiða umræðu um alþjóðleg viðskipti og skattamál, m.a. þá stefnu sem hv. þingmaður studdi á sínum tíma, að laða til landsins með meiri háttar skattafslætti og undanþágum svo árum skipti, skattahagræði fyrir alþjóðleg fyrirtæki og laða þau með þeim hætti til Íslands, fyrirtæki sem þá ein í fyrirtækjaflórunni (Forseti hringir.) á Íslandi borga ekki lögboðna skatta, fyrirtæki sem njóta góðs af því að milljarðar eru settir af skattfé í að byggja upp innviði (Forseti hringir.) þannig að fyrirtækin séu tilbúin að koma til Íslands. Hvað finnst hv. þingmanni um það?