145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[11:27]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er fyrst til að taka að að sjálfsögðu borgar framleiðslufyrirtækið og kvikmyndaiðnaðurinn sína skatta eins og aðrar greinar hér á landi. Af þeirri þjónustu sem er svo veitt endurgreiðsla á er að sjálfsögðu greiddur virðisaukaskattur. Menn greiða launatekjur og aðra launaskatta og aðra skatta sem til falla. Það verður að vera algjörlega skýrt. Þetta er endurgreiðsla, eins og ég las upp úr lögunum áðan, af hluta þess framleiðslukostnaðar sem fellur til hér á landi og fellur undir íslensk skattalög. Þá er það skattyfirvalda að meta hvað fellur þarna undir. Er það hótelkostnaður? Já, væntanlega ef leikarar og starfsmenn við myndina þurfa að gista utanbæjar til að mynda. Það er að sjálfsögðu kostnaður sem fellur til við framleiðsluna.

Varðandi það hvort þak eigi að vera á þeim greiðslum eða ekki þá hefur ekki verið sett þak á þær í þessum lögum. Ég er sammála því vegna þess að einn af kostunum við það kerfi sem við höfum haft hér frá árinu 1999 er að það er einfalt. Það er án undanþágna. Það er 20% af þeim kostnaði, eins og ég fór yfir. Það er einfalt. Menn vita hvernig það gengur og það hefur gengið nokkuð snurðulaust fyrir sig. Um leið og sett eru inn önnur ákvæði dregur úr þeim einfaldleika, þess vegna hef ég ekki verið hlynnt því. Þar að auki er þetta hlutfallslegt. Það er verið að greiða til baka hlutfall af kostnaði sem fellur til, þannig að í mínum huga er réttlætanlegt og sanngjarnt að hafa það án þaks.