145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[11:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér hefur sennilega eitthvað fipast í fyrri ræðu, auðvitað var það sem ég ætlaði að segja með stöðu ríkissjóðs að hann væri ekki lengur rekinn með halla.

Hvað varðar nauðsyn þess að hækka upp í 25% þá þykir mér hún vera ágætlega reifuð í frumvarpinu sjálfu. Það er af samkeppnisástæðum við aðrar þjóðir (SÁA: Skattasamkeppni?) eins og t.d. Noreg sem er einnig með 25%. Við erum í samkeppni við aðrar þjóðir þegar kemur að menningu og kynningu á landi, það er þannig.

Ég heyri hv. þingmann velta því fyrir sér hvort það sé samkeppni í skattlagningu eða ríkisútgjöldum. Auðvitað erum við alltaf í samkeppni við aðrar þjóðir á mörgum forsendum. Margir á hægri kantinum vilja fara í samkeppni í því að hafa sem lægsta skatta. Það er sjónarmið sem ég er ekki sammála, ég ber virðingu fyrir því, það er alveg lögmæt skoðun, ég er ekki alveg þar sjálfur, en skil mætavel þau sjónarmið og ber virðingu fyrir því að fólk hafi þau.

Hins vegar þegar kemur að því að styrkja íslenska menningu eins og markmiðsklausa laganna sem hér er lagt til að verði breytt kemur mjög skýrt inn á, þurfum við að gera það að mínu mati með skattfé. Það er bara sú staða sem við erum í. Þegar við erum í samkeppni við þjóðir á borð við Noreg sem er stærri þjóð, þá getum við ekki verið aftar en þær, nágrannaþjóðir og vinaþjóðir okkar sem eru okkur náskyldar í þokkabót og að mörgu leyti með sambærilega kosti til kvikmyndagerðar, við getum ekki dregist aftur úr þeim. Það er alla vega mín afstaða. Þess vegna styð ég það að hækka hlutfallið úr 20% í 25%. Kannski væri ég á annarri skoðun ef við værum að fara úr 12% í 25%, enda litu tölurnar væntanlega öðruvísi út þá. En hér er verið að hækka um 5 prósentustig. Það er verið að framlengja þau lög sem þegar eru í gildi. Ég sé enga ástæðu til þess að draga úr þessu. Ég sé ástæðu til þess að gefa í og þess vegna er ég hlynntur málinu.