145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[11:52]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að ívilnanir hvers konar þegar kemur að sköttum eru ekki til góðs, mögulega til skamms tíma og fyrir þá auðvitað sem njóta ívilnunarinnar, en alveg örugglega ekki til langs tíma, ekki nema ef vera skyldi til að vekja athygli á kjarna málsins, sem er sá að þar sem menn telja þörf á að veita skattaívilnanir, undanþágur hvers konar, endurgreiðslur eða með hvaða hætti sem það er sem menn vilja ívilna mönnum í skattalegu tilliti, þá er það vegna þeirrar ástæðu einnar að skattar eru of háir og menn ekki samkeppnishæfir við önnur lönd þegar kemur að sköttum. Það játa þeir meira að segja sem hæst tala nú um samkeppni í sköttum og skattaskjólum og fordæma þá sem flýja til lágskattaríkja. Þeir viðurkenna það jafnvel líka og benda á það máli sínu til stuðnings að mál eins og þetta, endurgreiðsla vegna kvikmyndaframleiðslu, sé nauðsynlegt vegna þess að annars færi öll þessi kvikmyndaframleiðsla til þeirra landa þar sem skattarnir eru lægri.

Virðulegur forseti. Ég vil líka vekja sérstaka athygli á einu, af því að ég hef orðið vör við það, bæði hér innan húss og utan, að menn hafa, eða sumir, kannski ekki áttað sig almennilega á því í fljótu bragði um hvers konar endurgreiðslu er að ræða. Hér er ekki um það að ræða að verið sé að endurgreiða einhvern sérstakan skatt sem inntur hefur verið af hendi, til dæmis endurgreiðsla virðisaukaskatts eins og ferðamenn fá þegar þeir koma hingað til Íslands og versla hér, þá geta þeir fengið endurgreiddan hluta af virðisaukaskattinum. Nei, það er heldur ekki verið að endurgreiða einhverja aðra skatta. Það er ekki verið að ívilna eins og í öðrum ívilnunarverkefnum kvikmyndaframleiðendum með þeim hætti að þeir fái niðurfellda einhverja skatta. Nei, hér er um það að ræða að verið er að endurgreiða úr ríkissjóði ákveðið hlutfall af framleiðslukostnaði sem til fellur við framleiðslu kvikmyndar hér á landi. Hér er sérstaklega tekið fram í lögunum sem um þetta gilda að við útreikning á endurgreiðslu sé tekið mið af heildarframleiðslukostnaði kvikmyndar án tillits til þess hvaða þáttur í framleiðslunni skapar þann kostnað.

Ég spurði hæstv. ráðherra við framsögu hennar nánar út í þetta vegna þess að jafnvel þótt orðalagið í lögunum sé skýrt þá fannst mér rétt að fá það sérstaklega fram, að hér undir fellur til dæmis endurgreiðsla á kostnaði vegna hótelgistingar, endurgreiðsla á kostnaði vegna pítsukaupa fyrir starfsmenn, matur og drykkur, þyrluflug, allt hvað eina sem fellur undir framleiðslukostnað kvikmyndar. Ég benti á það í andsvari við hæstv. ráðherra að ég teldi eðlilegt að það lægi bara fyrir við uppgjör á þessum endurgreiðslum hvað nákvæmlega verið er að endurgreiða, hvaða kostnaður það er nákvæmlega sem ríkissjóður, og skattgreiðendur þar með, eru að endurgreiða. Ég tel þetta skipta máli vegna þess að allur þessi rekstur er auðvitað samkeppnisrekstur, og í þessu tilliti eru bara sumir sem njóta þeirrar endurgreiðslu eða ívilnunar, aðrir ekki. Ég tel sjálfsagt að þetta sé allt saman uppi á borðum.

Þá vil ég sérstaklega taka fram í ljósi ræðu hv. þingmanns sem talaði fyrr í dag um þetta mál, að hér er auðvitað ekki um að ræða einhverja sérstaka endurgreiðslu vegna menningartengdra þátta, með vísan til menningar eða íslensku eða þess háttar, vegna þess að fyrir utan þessa tímabundnu endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar þá höfum við á Íslandi Kvikmyndasjóð og höfum haft í áratugi. Hann veitir styrki einmitt út frá slíkum sjónarmiðum.

Því hefur verið haldið fram, bæði hér og reyndar í umræðu um öll þessi mál, að borðleggjandi sé að endurgreiða vegna kvikmyndagerðar á Íslandi vegna þess að fyrir eina krónu komi þrjár upp í fimm krónur til baka, hef ég heyrt. Því er að minnsta kosti slegið fram að fyrir eina krónu komi margar til baka. Sýnist mér þá að hér hafi verið fundin upp gullgerðarvélin sem margir hafa reynt að finna upp. Ég trúi þessu auðvitað ekki. Ég trúi því ekki að gullgerðarvél hafi verið fundin upp og með þessum hætti. Enda liggur fyrir að á árunum 2008–2012 hafi endurgreiðslur og styrkir úr Kvikmyndasjóði numið rúmum 2 milljörðum kr. meira en skatttekjur af sömu verkefnum.

Ég vil líka nefna af því að þetta mál sérstaklega lýtur kannski ekki að styrkjum til kvikmyndagerðar, en eins og ég hef nefnt þá er til staðar kvikmyndasjóður sem hefur veitt styrki, og rökræðunnar vegna vil ég ekki blanda þessu tvennu saman. En mér þykir sjálfsagt að menn velti því fyrir sér í árferði eins og nú er, jafnvel þótt þessi ríkisstjórn hafi náð að færa skuldir verulega niður, þá eru skuldir eftir sem áður um 70% af vergri landsframleiðslu og afar brýnt að færa þær niður. Brýn verkefni bíða í heilbrigðisþjónustu, í þjónustu við aldraða og öryrkja, og ég tel að menn hljóti að þurfa að bera svona verkefni saman og vega þau og meta í samanburði við þau brýnu verkefni sem ég hef nefnt og held að þverpólitísk samstaða sé um að ráðast þurfi í.

Frumvarpið er nefnilega ekki bara framlenging á þeirri reglu sem hafði gilt um 20% endurgreiðslu, heldur er verið að leggja til töluverða hækkun á endurgreiðslunni. Ég set mikinn fyrirvara við það. Eitt er að vilja halda áfram og hafa þetta fyrirkomulag, annað er að gefa svona verulega í eins og lagt er til. Ég tel og beini því til hv. atvinnuveganefndar sem fær málið til umsagnar að skoða þetta sérstaklega og einnig hitt atriðið sem ég hef nefnt í andsvörum, sem eru samkeppnissjónarmiðin. Það má ekki gleyma því að þeir sem vinna í kvikmyndagerð, ekki bara þeir sem koma beint að kvikmyndagerðinni heldur þeir sem þjónusta hana, hótelrekendur, veitingasalar, bílstjórar og þar fram eftir götunum — allt eru þetta atvinnugreinar sem eru í samkeppni í landinu og alveg ljóst að endurgreiðsla sem þessi raskar samkeppnisstöðu.

Ég tek undir það sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur einmitt bent á að það er auðvitað langbest fyrir efnahagslífið að atvinnugreinum sé ekki mismunað. Líka er ágætt að hafa í huga það sem fram kemur í þeirri skýrslu sem hæstv. ráðherra vísaði til og var kynnt á Alþingi fyrr á þessu þingi, sem mér skilst að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hafi komið að að einhverju leyti, að þar kemur einmitt fram að mjög erfitt er að sýna fram á efnahagslegan ábata af því að styðja við kvikmyndagerð sérstaklega umfram aðrar atvinnugreinar. Í máli hv. þingmanns sem talaði á undan mér kom einmitt fram hugmynd um að kannski væri gott að þessi endurgreiðsla væri kannski á fleiri sviðum. Ég tek alveg undir það. Menn hljóta að þurfa að spyrja sig að því. Kvikmyndagerð er í samkeppni við tónlistargeirann og leikhúsgeirann og þar fram eftir götunum, sumir njóta styrkja, beinna styrkja, eins og kannski leikhúsin gera, en tónlistin ekki að neinu leyti eða mjög litlu leyti. (Gripið fram í: Er ekki sinfóníuhljómsveit?) Jú, að vísu er rekin ein ríkishljómsveit, alveg ágæt, en umfram hana er tónlistin kannski ekki mikið ríkisstyrkt, sem betur fer segi ég. En hún hefur ekki síður átt sinn þátt í að kynna menningu landsins og laða að ferðamenn hingað en kvikmyndagerð. Ef ég ætti, ég er nú enginn fagmaður í þessu, að slá eitthvað á það mundi ég telja að tónlistin vegi þyngra þar en kvikmyndir sem sýna jú vissulega íslenskt landslag, en án þess að þess sé getið eitthvað sérstaklega í kvikmyndunum. En þetta er auðvitað aukaatriði, algjört aukaatriði.

Aðalatriðið er að menn sitji allir við sama borð þegar kemur að skattlagningu, bæði allir listamenn og aðrir. Það er auðvitað ekki til velfarnaðar fallið þegar menn ætla að fara að draga eina atvinnugrein út úr og styrkja hana og ívilna henni umfram aðra. Ég ætla að biðja hv. atvinnuveganefnd að skoða það sérstaklega. Það er afskaplega brýnt líka að samkeppnisyfirvöld ræði þetta, fái málið til umsagnar og gefi umsögn um það sérstaklega með tilliti til þessara sjónarmiða.

Samkeppni, vel á minnst, allt þetta mál er eins og öll önnur ívilnunarmál, eins og ég hóf mál mitt á, spurning um samkeppni um lága skatta. Ég fagna því ef menn vilja taka þátt í þeirri samkeppni og keppa við önnur lönd um lága skatta. En við eigum bara að gera það heiðarlega og með jafnræði í huga og gagnsæi, og hafa allt uppi á borðum. Við eigum að lækka skatta og laða þannig erlenda fjárfesta að, erlenda menningu, framleiðendur, ekki bara kvikmyndaframleiðendur, heldur tónlistarframleiðendur og aðra, með hagkvæmu skattumhverfi, almennt. Ég vona að þeir sem eru mjög áfram um þetta mál missi ekki sjónar á því að þetta er verkefni sem þarf að fara í og ná samstöðu um.