145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[12:07]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hefur misskilið mig illilega. Ég er sammála 1. gr. laga um endurgreiðslu til kvikmyndaframleiðslu, þ.e. ég er sammála um að efla eigi og styrkja íslenska menningu. Mikil ósköp. Ég er sammála því markmiði út af fyrir sig. Ég er hins vegar ekki sammála því að þetta sé leiðin til að gera það.

Hv. þingmaður spyr mig af hverju ég sé á móti endurgreiðslu en styðji skattaívilnun. Ég tók það sérstaklega fram að ég styð ekki sérstakar skattaívilnanir eða sérstakar undanþágur frá sköttum. Ég hef einmitt goldið varhuga við lögum um nýfjárfestingar á Íslandi og þeim samningum sem verið er að gera fyrir hönd ríkissjóðs þar sem fyrirtækjum, yfirleitt í einhvers konar semi-stóriðju, eru veittar skattaívilnanir. Ég hef í mörg ár, áratug, barist gegn slíkum skattaívilnunum.

Ég legg á það áherslu að ef menn vilja efla menningarlíf, íslenska framleiðslu og laða að erlenda fjárfesta og erlenda menningarstarfsemi, erlenda aðila til þess að framleiða sína menningu hér, þá er eina leiðin til þess að gera skattaumhverfið hér aðlaðandi fyrir alla, líka fyrir íslenska skattgreiðendur. Það er það sem við þurfum að gera. Það er þess vegna sem ég geld varhuga við þessum sérlausnum og bútasaumi til þess að styðja við hina og þessa þessa stundina eða aðra. Einföldum kerfið og höfum í öllum bænum jafnræðið að leiðarljósi.