145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[12:11]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér kemur fram grundvallarmunur á okkur hægri mönnum og vinstri mönnum, eins og hv. þingmanni sem hér talaði, sem geta ekki séð fyrir sér að nokkur hlutur þrífist nema til þess komi að ríkið sé með sértækar lausnir, sérstakar aðgerðir til að styðja við viðkomandi atvinnugrein, listsköpun eða annað. Þetta er algjör misskilningur. Listir og menning þrífast þar sem ríkir jafnræði, þar sem ríkir gagnsæi, þar sem einstaklingarnir, skattgreiðendur, og fyrirtækin í landinu eru ekki skattpínd heldur fá þvert á móti að halda eftir stærri hluta af sínu sjálfsaflafé og hafa ráðstöfunartekjur til að styrkja menningu og listir og atvinnulíf og nýsköpun. Þannig þjóðfélagi berjumst við hægri menn fyrir. Það er þess vegna sem við tökumst á við vinstri menn hér á þingi og annars staðar. Þetta er grundvallarmunurinn.

Rökræðunnar vegna skal ég síðan fallast á að látnir séu óáreittir þeir sjóðir, þeir styrkjasjóðir, sem nú þegar eru starfandi, í þessu tilviki Kvikmyndasjóður sem veitir árlega fé, styrki með opnum og gagnsæjum hætti til kvikmyndagerðar. Er það ekki nóg? Endurgreiðsla eins og þetta frumvarp felur í sér er langt umfram allan hefðbundinn stuðning við menningu og listir.