145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[12:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef alltaf mjög gaman af útskýringum hv. þingmanns á hverju svo sem hann er með hugann við hverju sinni. En fyrst hv. þingmaður kallar mig anarkista langar mig að spyrja hv. þingmann og byrja á játningu: Einu sinni kallaði ég mig anarkista, reyndar í þó nokkuð mörg ár. Svo eftir eitt af mínum mörgu samtölum við aðra unga herramenn sem kölluðu sig anarkista komst ég að þeirri niðurstöðu að ég hefði aldrei hitt tvo anarkista sem kölluðu sig svo sem voru sammála um það hvað anarkismi væri. Sambærilegt vandamál og maður lendir í þegar maður ræðir ýmsa isma. Því langar mig að fræðast í einhvers konar sjálfsskoðun hérna og spyrja hvort hv. þingmaður geti útskýrt fyrir mér hvað hann eigi við með anarkisma og hvað það sé í fari þess sem hér stendur eða skoðunum sem hv. þingmaður telur eiga rót sína að rekja til anarkisma. Er það kannski það að sá sem hér stendur er hlynntur því eða telur það reyndar borðleggjandi að fólk hafi yfirráð yfir eigin líkama? Eða er það að sá sem hér stendur trúir því að menn eigi að geta talað um trúarbrögð hver annars án ótta við að móðga þá og fara þar af leiðandi í bága við 125. gr. almennra hegningarlaga sem nýlega var felld burt? Ég hefði mikinn áhuga á að heyra allt sem hv. þingmaður hefur um anarkisma að segja og skilgreiningu þess hugtaks eða hvað það er við þann sem hér stendur sem hann telur benda til anarkisma.