145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[12:23]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessum orðum mínum, þar sem ég var að verja hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson, ætlaði ég mér nú ekki að fjalla um þetta og þetta var algert aukaatriði í minni ræðu. Ég ætlaði að fjalla efnislega um frumvarpið. Ég hef tamið mér í ræðustól að reyna nú að hanga á því efni sem er til umræðu en ekki að fara út í annað. Þetta frumvarp fjallar ekki um stjórnleysi, anarkisma, per se. Hins vegar skal ég ræða við hv. þingmann hér í hliðarsölum um hægri og vinstri og anarkisma en ég vil ekki blanda því frekar í umræðu um þetta frumvarp. Hins vegar er ég dálítill íhaldsmaður (Gripið fram í.) og mér þótti alger óþarfi að fella niður ákveðna grein hegningarlaga á sínum tíma. En að öðru leyti ætla ég ekki að fjalla um hugmyndir mínar um anarkisma í þessari ræðu, enda er það kvikmyndagerð algerlega óviðkomandi, (Gripið fram í.) hv. þingmaður.