145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[12:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

Eins og komið hefur fram í máli hæstv. ráðherra og þeirra sem hafa talað eru þær endurgreiðslur ekki nýjar af nálinni, heldur hafa þær verið lengi við lýði og verið að breytast í tímans rás.

Á síðasta kjörtímabili þegar fjallað var um þessi mál og hlutfallið fór í 20% var tekin mikil og góð umræða um hvort réttlætanlegt væri að ríkið færi inn í þennan atvinnuveg á þennan hátt og veitti ívilnanir. Ég taldi þá í ljósi þess að við sköpuðum mikinn virðisauka í samfélaginu með beinum eða óbeinum hætti að það væri mikill akkur í því að efla kvikmyndagerð á Íslandi og draga hingað erlenda aðila til samstarfs. Auk þess væri þetta góð landkynning fyrir okkur sem mundi efla ferðamennsku og atvinnustarfsemi á stöðum á landsbyggðinni þar sem það mundi annars ekki gerast, eins og nefnt hefur verið. Því væri vel þess virði að koma inn með þennan stuðning og réttlætanlegt.

Ég er á sömu skoðun í dag. Þarna eru gerðar þær breytingar að verið er að hækka þetta hlutfall upp í 25% og horft til þess að við eigum í mikilli samkeppni við ýmis lönd í nágrenni við okkur varðandi það að laða hingað að kvikmyndagerð. Ég tel að við þurfum að leggja kalt mat á það hvers virði það er að halda þeirri stöðu sem við höfum í dag og styrkja hana.

Ég get alveg fallist á að þetta hlutfall hækki í 25% þó að ég sé ekki þar með að segja að það ætti að vera varanlegt og til ókominnar framtíðar. Það er verið að tala um framlengingu til ársins 2021. Þá tökum við stöðuna aftur og kannski stöndum við þá frammi fyrir þeim veruleika að atvinnustarfsemin, sem nú þegar hefur vaxið úr því að vera barn í að vera unglingur, verði orðin fullorðin og þurfi ekki á meðgjöf að halda frá ríkinu. Vonandi verður það þannig.

Ég lít þannig á að verið sé að setja þessi mál í þann búning að styrkja það sem er talið til framleiðslukostnaðar, sem fellur þá undir mjög nákvæma úttekt á því hvort það sé samkvæmt íslenskum skattalögum rétt að leggja það fram og lagt verður mat á það. Þá verður líka hægt að kæra til yfirskattanefndar ef ágreiningur kemur upp um það.

Við þurfum að vanda mjög vel til verka og fara eftir stjórnsýslulögum, hafa sem mest gegnsæi og koma í veg fyrir að það sé einhver misbrestur á og menn misnoti þennan stuðning, því að það er um háar fjárhæðir að ræða sem ríkið leggur til kvikmyndaiðnaðar.

Það má alltaf deila um það hvort þá sé verið að mismuna öðrum atvinnugreinum í landinu. Menn vilja að það ríki jafnræði. En að minnsta kosti hingað til hefur verið litið á það þannig að það sé heimild fyrir þessu án þess að verið sé að brjóta á öðrum atvinnuvegum og þetta hefur staðist alla skoðun. Þess vegna er ég fylgjandi því að við höldum áfram miðað við reynsluna að styrkja og efla þennan atvinnuveg á Íslandi og sjáum svo til hvort hann geti plumað sig og hvort hann standi á eigin fótum að fimm árum liðnum.

Við þurfum að horfa á það sem hefur verið að gerast í mjög öflugri kvikmyndagerð á Íslandi, bæði á vegum íslenskra aðila og í samstarfi við erlenda. Það hefur vakið mikla og jákvæða athygli á okkur sem þjóð og ferðamannalandi. Ég tel að það sé ekki alltaf mælanlegt hversu mikið slík jákvæð auglýsing skilar okkur í tekjum þegar upp er staðið. Við komum kannski út á pari eða jafnvel í plús varðandi þennan stuðning.

Ég vil segja að ég er jákvæð gagnvart þessu máli. Við í atvinnuveganefnd munum vinna að því máli með jákvæðu hugarfari og horfa til sögunnar og horfa til þess að eftirsóknarvert er að byggja upp fleiri stoðir í atvinnulífi landsins og auka fjölbreytni. Ég tel að kvikmyndagerð og það hvernig hún hefur þróast falli vel að umhverfisvernd og jákvæðri ímynd landsins og sjálfbærni og það þarf að halda iðnaðinum undir þeim formerkjum. Það er mjög mikilvægt fyrir ímynd landsins og fyrir okkur sjálf að halda því þannig að borin sé virðing fyrir náttúru Íslands og hún skaðist ekki, að þótt ýmislegt rask fylgi kvikmyndaiðnaði verði borin virðing fyrir náttúrunni og farið eftir öllum settum reglum.