145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[14:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég get nú stytt mál mitt og vísað til þess sem hér kom fram áðan í máli talsmanns velferðarnefndar í þessu máli. En ég tel mikilvægt að gerð hafi verið grein fyrir því að nefndin hafði þetta mál til skoðunar milli 2. og 3. umr. þó svo að því væri ekki formlega vísað til nefndarinnar. Niðurstaða nefndarinnar var að kalla það ekki til sín þar sem ekki var talin þörf fyrir framhaldsnefndarálit eða teljandi breytingar á málinu. Engu að síður notaði nefndin tímann og tók fyrir þær athugasemdir og þau sjónarmið sem nefndin eða einstökum nefndarmönnum bárust á milli umræðna eins og hér var farið yfir áðan.

Upp að vissu marki þekktum við þessi sjónarmið og höfðum glímt við þau áður þannig að ekki þurfti kannski að koma á óvart þó að það leiddi ekki til mikilla breytinga frá þeirri niðurstöðu sem var orðin í nefndinni eftir mikla vinnu í aðdraganda 2. umr.

Þar hefur verið hvað fyrirferðarmest viðhorf sem tengjast viðskiptum með búseturétt og hvernig um það sé allt saman búið. Það er vissulega vandasamt mál og getur að einhverju leyti verið pólitískt líka, hvaða hugsun menn vilja leggja til grundvallar starfsemi þessara félaga og réttarstöðu búseturéttarhafanna annars vegar og stöðu félaganna hins vegar.

Meginniðurstaðan er að það er í valdi húsnæðissamvinnufélaganna að ganga alveg frá því í samþykktum sínum, vissulega innan ramma laganna, hvernig með búseturéttinn er farið í þeim tilvikum, þar á meðal að setja viðmið um verð, bæði lágmarks- og hámarksverð. Félögin geta mótað sér eigin stefnu og haft hana í sínum samþykktum um vilja sinn til þess að innleysa búseturétt ef félagsmenn óska eftir því. En niðurstaðan er engu að síður sú að fortakslaus kaupskylda er óheimil og það er auðvitað gert í ljósi reynslunnar og til þess að reyna að verja félögin betur fyrir mögulegri ágjöf í framtíðinni.

Þau sjónarmið eru hins vegar fullgild að það geti verið hluti af því að byggja upp tiltrú á félaginu og laða menn til þátttöku í þessu húsnæðisformi að félögin hafi að minnsta kosti ásetning og stefnu sem snýr að því að greiða götu þess ef menn þurfa vegna breyttra aðstæðna að flytjast milli landshluta eða yfirgefa félagið af einhverjum öðrum aðstæðum.

Ég tel líka að aðrar breytingar sem nefndin gerði og hnykkir á sem og í lögskýringum eða útskýringum sínum í nefndaráliti séu til þess að undirstrika samvinnu eða sjálfseignarstofnunareðli þessara félaga. Eins og fram kom áðan hjá talsmanni þá eru ákvæði sem koma í veg fyrir og banna arðgreiðslur út úr félögunum.

Sömuleiðis ákvað nefndin við 2. umr. að setja um það skýr ákvæði að komi til slita á félagi af þessu tagi þá geta félagsmenn ekki gert tilkall til verðmæta sem þar kynnu að standa eftir þegar félagið hefur gert upp allar skuldbindingar sínar, þar á meðal við búseturéttarhafana, heldur skuli þau meðhöndlast sem sjálfseignarfé og renna til húsnæðismála á viðkomandi svæði í samræmi við markmið og tilgang félagsins og/eða viðurkenndra líknarmála.

Allt er þetta í þá veru sem og það sem nefndin hnykkti á líka með breytingartillögu við 2. umr. að viðskiptin með búseturéttinn eru bundin við félagsmenn og mjög mikilvægt að hafa það í huga að hér er ekki um að ræða viðskipti á markaði. Þetta er eingöngu spurningin um hvaða reglur samkvæmt samþykktum félagsins gilda um það þegar búseturéttur skiptir um hendur innan félagsins og milli félagsmanna.

Það var líka rætt um möguleika húsnæðissamvinnufélaga að vera þátttakendur t.d. í byggingu og rekstri leiguíbúða og spurningin um hvaða svigrúm eða stöðu þau hafa til þess. Farið var yfir það áðan sömuleiðis að ekkert hindrar þau að leggja fram krafta sína við stofnun slíkra félaga þó að í öðru formi séu en húsnæðissamvinnufélag. Sem dæmi má nefna almennt íbúafélag, ef það verður að veruleika samkvæmt frumvarpi til laga um almennar íbúðir sem enn heita svo í því frumvarpi og er sömuleiðis til umfjöllunar í nefndinni, sem og að standa að slíku í samstarfi við fleiri aðila.

Ég vil þó segja að eigi reynslan eftir að leiða í ljós að húsnæðissamvinnufélögunum sé að einhverju leyti of þröngur stakkur skorinn í þessum efnum þá áskil ég mér að minnsta kosti rétt til þess að taka það mál upp að nýju. Það væri auðvitað beinlínis óskynsamlegt annað en að nýta krafta þeirra þó félaga sem eru starfandi í þessum málaflokki í dag og eru sæmilega burðug til þess að takast á við nýjar áskoranir, að byggja húsnæði og bjóða þótt til leigu sé. Að mörgu leyti gætu samlegðaráhrifin af því að húsnæðissamvinnufélög væru þátttakendur í slíku verið ágæt, ég tala nú ekki um á minni markaðssvæðum en á höfuðborgarsvæðinu þar sem fleirum er til að dreifa. Það er þá eitthvað sem tíminn mundi leiða í ljós.

Það mun einnig skipta máli hvernig búið verður um vissa hluti í þessum efnum eftir atvikum annars staðar í löggjöf og þar á meðal í lögunum ef af verða um almennar íbúðir, sem sagt íbúðir til útleigu, til fólks undir tilteknum tekjumörkum sem byggðar yrðu á grundvelli stofnframlaga frá ríki og sveitarfélögum eða við byggingu hverra yrði stutt með stofnframlögum frá ríki og sveitarfélögum.

Þar gildir það sama að augljóst mál er að eigi að nást árangur í því máli og menn eigi að geta verið sæmilega trúaðir á að það verði til þess að eitthvað dragi úr ófremdarástandi á leigumarkaði og framboð á húsnæði á viðráðanlegum kjörum aukist þá skiptir öllu máli að búa þannig um hnúta að kraftar þeirra sem til staðar eru séu að minnsta kosti nýttir ásamt með eftir atvikum nýjum aðilum sem vildu spreyta sig á þessu sviði. Það verður þá að koma í ljós hvernig til tekst þegar sú löggjöf og/eða önnur eftir atvikum sem hér kemur við sögu er komin á koppinn.

Að lokum vona ég að þessi nýi eða endurskoðaði lagarammi fyrir húsnæðissamvinnufélög eigi eftir að nýtast þeim vel. Hann er að mínu mati traustari á ýmsan hátt en sá sem fyrir var enda var tilgangurinn ekki síst að styrkja lagaumgjörðina um þetta húsnæðisform. Ég hef alla tíð haft mikla trú á því og hef gjarnan viljað leggja því lið að þessi valkostur í húsnæðismálum fengi að þróast og dafna við hliðina á öðrum. Hann er eðli málsins samkvæmt visst millibil milli séreignar og þess að vera alfarið á leigumarkaði og háður leigusölum. Hér tryggja menn sér réttinn með búseturéttargjaldi en eru í félagi um það sem á margan hátt er að mínu mati mjög gott fyrirkomulag. Vonandi dugar þessi löggjöf þar af leiðandi vel til að rekstur húsnæðissamvinnufélaga geti dafnað og orðið traustur og vel varinn fyrir áföllum á komandi tímum sem því miður verða nú sjálfsagt einhver ef að líkum lætur í okkar húsnæðismálum.

Hér þarf auðvitað að þræða ákveðinn milliveg og það er ekkert launungarmál að þar getur verið vandratað. Annars vegar milli þess að setja skýran lagaramma sem menn hafa trú á að sé traustur og tryggi farsæld þessa húsnæðissamvinnuforms en um leið hafa nægjanlegan sveigjanleika í lögunum til þess að húsnæðissamvinnufélögin geti starfað eins og þeim hentar best við ólíkar aðstæður.

Þar er auðvitað ekki hægt að horfa fram hjá því að það er mikill aðstöðumunur milli þeirra sem starfa í húsnæðismálum á höfuðborgarsvæðinu og svo kannski á öðrum svæðum á landinu þar sem eftir sem áður stendur rík þörf til þess að í boði séu búseturéttaríbúðir og/eða leiguíbúðir á viðráðanlegum kjörum.

Í raun og veru er leiðin sem valin er að hafa lagarammann skýran en ekki allt of stífan þannig að húsnæðissamvinnufélögin geti mætt þessu með mismunandi útfærslum í samþykktum sínum. En að sjálfsögðu er erfitt að fullyrða að við höfum alls staðar hitt nákvæmlega á rétta meðalveginn í þeim efnum.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, frú forseti. Nefndin hefur unnið að þessu eftir bestu getu. Hún hefði að sjálfsögðu getað þegið enn þá meiri tíma til þess að fara yfir þetta mál en því er ekki beinlínis að heilsa að tíminn vaxi á trjánum núna fyrir velferðarnefnd sem hefur í miklu að mæðast eins og kunnugt er, en við teljum að málið sé eins vel undirbúið til lokaafgreiðslu og kostur er af okkar hálfu.