145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[14:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kann ekki alveg að skýra hvers vegna nákvæmlega menn enduðu með þriðjung sem efri mörk. Að einhverju leyti er það vegna þess, trúi ég, að félögin hafa verið að prófa og velta fyrir sér að bjóða upp á mismunandi valkosti þannig að menn gætu komið inn og greitt mishátt búseturéttargjald sem væri þá kannski allt frá því að vera niður í 5–10% af verðmæti viðkomandi íbúðar og alveg upp í þetta, það væri þá eftir því hvað hver og enn teldi sér henta. Hugsunin er sú að menn njóta þess í þeim mun lægri leigu sem þeir eiga í raun meira, í þessum skilningi hærra hlutfall í húsnæðinu. Menn taka þá vissulega meiri áhættu líka því að menn bera síðan ekki ábyrgð á öðru en skuldbindingu félagsins að öðru leyti en því sem þeir hafa reitt fram búseturéttargjöldin. Þarna er kannski hugsunin sú að hafa ákveðið svigrúm til að spila á mismunandi aðstæður. En það er náttúrlega alls ekki ætlunin að breyta húsnæðissamvinnufélögum í séreignarfélög og færa þau inn í séreignarstefnuna. Þess vegna held ég að það sé alveg fyllilega nóg ef ekki bara vel í lagt og aðeins of í lagt að búseturéttargjaldið geti farið alveg upp í þriðjung af verðmæti íbúðarinnar. Þá ertu náttúrlega orðinn býsna stór hluthafi í félaginu.

Ég hef alla vega séð á blaði hugmyndir um að hafa nokkra flokka og hafa sveigjanleika í þessu. Það kann að skýra að einhverju leyti af hverju menn vilja hafa svigrúmið innan lagarammans, hvort húsnæðissamvinnufélögin ákveða svo að nýta sér það að fullu er annað mál. Það er lagt í þeirra hendur. Þau setja síðan í samþykktir sínar nánari ákvæði um þetta og geta haft það eftir því sem þau meta hagstæðast á hverjum stað.