145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[14:22]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að hv. þingmaður hafi hitt á kjarna máls í þessu. Ungt fólk er að fara af stað og veltir því fyrir sér hvort það eigi að kaupa sér eign eða velja þetta form til að skuldbinda sig með minna eigið fé. Það er þetta svigrúm sem er verið að skilja eftir. Ég held að mikilvægt sé að draga fram markaðsvæðingu í framhaldi búseturéttar en þegar þetta er komið upp í 30% af markaðsvirði er fjárhæðin orðin ansi há. Ef maður væri að ráðleggja ungu fólki og það ætti slíkt eigið fé, sem væri 30% af markaðsvirði eigna, þá væri það orðið spurning um að ráðleggja fólkinu að kaupa sína fyrstu eign og eignast þar með í séreign. Ég sé þann vanda endurspeglast þarna sem nefndin hefur haft á höndum.

Svo er það hitt sjónarmiðið varðandi búseturéttinn og viðskipti með hann í framhaldinu hvernig félög í mismunandi aðstöðu höndla með hann. Ég hygg að þetta gefi svigrúm fyrir félögin til að vinna með og ég er sammála hv. þingmanni að 30% að því leytinu til er vel í lagt. Ég hef ekki neinar tölur yfir það hvar þetta hlutfall hefur legið sögulega en væntanlega munu húsnæðissamvinnufélögin vinna með einhver lægri hlutföll, eins og hv. þingmaður kom inn á. Það er í sjálfu sér engin spurning. Ég held að hv. þingmaður hafi dregið mjög vel fram þetta sjónarmið.