145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tollalög og virðisaukaskattur.

609. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi sem er flutt af efnahags- og viðskiptanefnd, samið í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneyti. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og fjallar um gjalddaga aðflutningsgjalda og gjalddaga virðisaukaskatts.

Sem fyrr segir er þetta frumvarp flutt í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneyti. Það bar til haustið 2008 að gjalddögum aðflutningsgjalda var fjölgað tímabundið með ákvæði til bráðabirgða. Gildistími þeirrar bráðabirgðareglu sem í ákvæðinu fólst hefur í raun verið framlengdur reglulega með nokkrum breytingum. Regluna má finna í ákvæðum til bráðabirgða II, III og V–XII í tollalögum, nr. 88/2005, og hefur hún með einum eða öðrum hætti verið í gildi frá haustinu 2008. Henni fylgdi breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, sem kallast á við bráðabirgðaregluna á þann hátt að þeim aðilum sem nutu greiðslufrests samkvæmt bráðabirgðareglunni var heimilað að færa innskatt á virðisaukaskattsskýrslu þrátt fyrir að hann hefði aðeins verið greiddur í ríkissjóð að hluta. Slíkt ákvæði kemur meðal annars fram í ákvæði til bráðabirgða XXVIII í lögum um virðisaukaskatt en tilgangur þess var að tryggja að skipting gjalddaga aðflutningsgjalda samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XII í tollalögum hefði ekki áhrif á innskattsrétt viðkomandi aðila.

Upphafleg ástæða þess að bráðabirgðareglan var felld inn í tollalög var að nauðsynlegt þótti að bregðast tímabundið við þörf á gjaldaaðlögun fyrirtækja vegna gengisfalls, samdráttar og verðbólgu á síðari hluta ársins 2008. Litið var svo á að reglan fæli í sér greiðsluaðlögun fyrir atvinnulífið sem gerði fyrirtækjum kleift að dreifa gjalddögum aðflutningsgjalda og vörugjalds. Með framlengingu sem átti sér stað með lögum nr. 46/2011 var vísað til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga en að öðru leyti hafa framlengingar grundvallast á því að nauðsynlegt væri að bregðast tímabundið við greiðsluerfiðleikum fyrirtækja vegna samdráttar í íslensku efnahagslífi.

Í þau skipti þegar reglan hefur verið framlengd hafa legið fyrir áskoranir frá hagsmunaaðilum, samtökum þeirra eða aðilum vinnumarkaðar. Í ljósi betri stöðu íslensks efnahagslífs og þess að ekki hefur verið farið fram á frekari framlengingu rann reglan sitt skeið á enda við lok ársins 2015 og við tóku ákvæði 122. gr. tollalaga. Fyrsti gjalddagi aðflutningsgjalda aðila sem njóta greiðslufrests á árinu 2016 er 15. mars 2016. Fyrirtæki, og þá einkum hin minni, virðast ekki hafa gert sér grein fyrir afleiðingum þess að bráðabirgðareglan rann sitt skeið á enda. Í mörgum tilvikum virðast þau illa undirbúin til að takast á við að þurfa að greiða aðflutningsgjöld á greiðslufresti í einu lagi. Endurskoðun gjalddaga og greiðslufresta skatta og gjalda er í farvatninu með samræmingu að leiðarljósi.

Í ljósi framangreinds leggur nefndin til þá breytingu að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við tollalög, sem verði ákvæði til bráðabirgða XIV, þar sem kveðið verði á að gildistími bráðabirgðareglunnar verði framlengdur út árið 2016 þannig að tveir gjalddagar verði fyrir aðflutningsgjöld vegna uppgjörstímabila frá tímabilinu mars og apríl og út árið 2016, annars vegar á 15. degi næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils og hins vegar á 5. degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Samhliða er lagt til að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög um virðisaukaskatt þar sem kveðið verði á um að þeim aðilum sem eiga rétt á tvískiptingu gjalddaga samkvæmt bráðabirgðaákvæði XIV í tollalögum verði heimilt að færa innskatt á virðisaukaskattsskýrslu þrátt fyrir að hann hafi aðeins verið greiddur að hluta.

Þó að samræming gjalddaga sé í farvatninu er allt að einu rétt að gera ráð fyrir því að bráðabirgðareglan renni sitt skeið endanlega á árinu 2016.

Virðulegi forseti. Ég hef farið í gegnum greinargerðina og það má vera ljóst þeim sem á hlýddu að hér er um mjög tæknilegt og kannski ekki lesendavænt frumvarp að ræða, en engu að síður er þetta talið hafa verulega hagsmuni fyrir þá sem eru greiðendur og draga úr sveiflum á notkun yfirdráttar og ætti að öðru jöfnu að vera ívilnandi fyrir verslun og framleiðslu í landinu á þann veg að neytendur eiga að njóta á lokastigum.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.