145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tollalög og virðisaukaskattur.

609. mál
[14:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alla jafna mjög ánægður þegar núverandi ríkisstjórn framlengir ráðstafanir í skattamálum sem gripið var til í tíð fyrri ríkisstjórnar. Þetta er eitt af mörgu sem við beittum okkur fyrir á sínum tíma í mestu erfiðleikunum, að koma til móts við fyrirtækin að þessu leyti og leyfa þeim að dreifa gjalddögum. Við kölluðum það gjalddagaaðlögun í þágu atvinnulífsins sem þá var í miklum erfiðleikum.

Í þessu tilviki hefði maður hins vegar kannski alveg eins viljað sjá að ekki væri þörf fyrir slíkt lengur eða að menn teldu að nú værum við komin það vel á veg að öllu leyti að ráðstafanir af þessu tagi gætu farið að heyra sögunni til. Það breytir auðvitað ekki því að hyggja þarf að því hvaða áhrif þetta hefur. Eins og fram kom í ræðu framsögumanns kann vel að vera að menn hafi ekki allir verið undir það búnir að þessar greiðslur færðust fram með því að aðlöguninni sleppti. Það vekur líka athygli á því sjónarmiði, sem er fullgilt, að breytingar af þessu tagi er betra að gera framvirkt með góðum fyrirvara og kynna þannig að allir viti að hverju þeir ganga í þeim efnum.

En að gamni slepptu nefndi hv. þingmaður að yfir stæði einhvers konar allsherjarendurskoðun eða samræming á gjalddagamálum af þessu tagi. Fróðlegt væri að heyra meira af því hvar það verk er á vegi statt eða hvað menn eru þar með í huga. Að sjálfsögðu er það fullgilt sjónarmið að reyna að samræma eftir bestu getu útgjöld og tekjur og síðan gjalddaga sem ríkið setur fyrir skil á gjöldum atvinnulífsins til ríkisins af þessu tagi. Það er að sjálfsögðu ekki markmið að ríkið standi í óbeinni lánastarfsemi og eðlilegt sjónarmið að ríkið fái tekjur sínar jafnóðum og stofn þeirra myndast. (Forseti hringir.) En þó innan sanngjarnra tímamarka.