145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

raforkulög.

639. mál
[14:50]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum (tenging minni virkjana við dreifikerfi raforku), frá atvinnuveganefnd.

Breytingarnar eru eftirfarandi:

Á eftir 2. málslið 1. mgr. 4. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Vegna raforkuvera með uppsettu afli 100 kW eða minna þarf þó ekki virkjunarleyfi.

2. gr. hljóðar svo:

Við 17. gr. a laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Afhendi virkjun með uppsett afl 100 kW eða minna raforku á lágspennu inn á dreifikerfið skal dreifiveita veita afslátt af úttektargjaldi til eigenda hennar. Afsláttur skal að lágmarki nema 50% en allt að 100% af gjaldinu og skal hann nánar útfærður í gjaldskrá. Afsláttur af úttektargjaldi á eingöngu við þegar eignarhlutur hvers eiganda er að lágmarki 33% í viðkomandi virkjun og/eða hinni virkjuðu auðlind.

Í greinargerð með frumvarpinu segir:

Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvær breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, sem snýr að möguleikum minni virkjana að tengjast dreifikerfi raforku.

Vegna skilyrða í ákvæðum raforkulaga um virkjunarleyfi hefur ítrekað komið upp sú staða að illgerlegt er fyrir virkjunaraðila að tengjast dreifikerfi á viðkomandi svæði eða afla sér virkjunarleyfis. Hefur þetta einkum komið upp vegna skilyrðis um að handhafi virkjunarleyfis sé sjálfstæður lög- og skattaðili. Fyrir allra minnstu virkjanir er skilyrðið íþyngjandi og hefur áhrif á möguleika þeirra til að tengjast dreifikerfinu en þær eru annars undanþegnar skilyrðum laganna um virkjunarleyfi.

Í 1. mgr. 4. gr. raforkulaga er kveðið á um að leyfi Orkustofnunar þurfi til að reisa og reka raforkuver. Slíkt leyfi þarf þó ekki ef uppsett afl raforkuvers er undir 1 MW nema orka frá því sé afhent inn á dreifikerfi dreifiveitna eða flutningskerfið. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að ef uppsett afl er 100 kW eða minna þurfi ekki virkjunarleyfi og það á þá við jafnvel þó að raforka sé afhent inn á dreifikerfið.

Telja verður að ástæða sé til að einfalda umhverfi minni virkjana með því að undanskilja þær frá kröfu laganna um virkjunarleyfi þrátt fyrir að þær séu tengdar við dreifikerfið. Miðast undanþágan þó aðeins við virkjanir með 100 kW uppsettu afli eða minna.

Ákvæði 2. gr. frumvarpsins er af sama toga og er til komið vegna þess að virkjanir undir 1 MW skulu hafa virkjunarleyfi ef þær eru tengdar við dreifikerfi raforku. Virkjunarleyfi er aðeins afhent aðila sem er sjálfstæður lög- og skattaðili en gerir að verkum að viðkomandi þarf að stofna einkaréttarlegt félag um fyrirtækið þótt ekki séu kröfur um hvert félagaformið er. Í mörgum tilfellum er virkjun stofnuð af fleiri en einum aðila sem í sameiningu virkja á sínu landi. Þar sem virkjunin er rekin á annarri kennitölu en eigendanna verður ógerningur fyrir eigendurna að dreifa rafmagni í sín eigin hús en dreifing raforku frá virkjun til aðila með aðra kennitölu telst stangast á við sérleyfi dreifiveitu á viðkomandi svæði.

Af þeim sökum er lagt til að við 17. gr. a raforkulaga verði bætt nýrri málsgrein sem kveður á um að afhendi virkjun með uppsett afl 100 kW eða minna raforku inn á dreifikerfi skuli viðkomandi dreifiveita veita afslátt af úttektargjaldi til eigenda hennar, að lágmarki 50% en allt að 100% af gjaldinu. Skal sá afsláttur nánar útfærður í gjaldskrá viðkomandi dreifiveitu og kann þar meðal annars að koma til skoðunar fjarlægð notkunarstaðar frá viðkomandi virkjun. Þá er gerð sú krafa að viðkomandi aðili eigi að minnsta kosti þriðjung í virkjuninni eða þeirri auðlind sem virkjuð er.

Ég mæli svo með því, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar.