145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

648. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/2002, styrkur til hitaveitna. Frumvarpið er frá atvinnuveganefnd.

Í 1. gr. segir:

Á eftir 1. mgr. 12. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Þrátt fyrir 1. mgr. getur styrkur til hitaveitu numið allt að 16 ára áætluðum niðurgreiðslum skv. 1. mgr. ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Viðkomandi hitaveita er í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem eru alfarið í eigu þessara aðila.

2. Viðkomandi hitaveita hefur ábyrgð hlutaðeigandi sveitarfélags sem stenst reiknireglur ráðuneytis sveitarstjórnarmála um skuldsetningu sveitarfélaga.

3. Viðkomandi hitaveita hefur fengið einkaleyfi til þess að starfrækja hitaveitu skv. orkulögum, nr. 58/1967, og uppfyllir því skilyrði 2. mgr. 32. gr. þeirra laga um að uppdrættir og áætlanir séu tæknilega réttar, hitaveitan verði þjóðhagslega hagkvæmt fyrirtæki, fullnægi hitaþörf svæðisins og að tryggður sé eðlilegur og truflanalaus rekstur, eftir því sem aðstæður leyfa.

4. Tryggt er að styrkurinn sé einungis til þess fallin að færa eiganda eða eigendum hitaveitunnar lágmarksarðsemi miðað við fjárfestinguna.

Lagt er til að lögin muni öðlast þegar gildi.

Í greinargerð með frumvarpinu segir:

Með frumvarpinu er lagt til að í sérstökum tilvikum sé heimilt að miða stofnstyrk nýrra hitaveitna við allt að 16 ár af áætluðum niðurgreiðslum á rafmagni til húshitunar á orkuveitusvæði viðkomandi hitaveitu. Um er að ræða undantekningu frá meginreglunni um 12 ára viðmið í 1. mgr. 12. gr. laganna og á hún eingöngu við að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Þau skilyrði eru í fyrsta lagi að viðkomandi hitaveita sé opinber hitaveita, þ.e. í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem eru alfarið í eigu þessara aðila. Í öðru lagi að viðkomandi hitaveita hafi fjárhagslega getu í krafti hlutaðeigandi sveitarfélags sem standist reiknireglur ráðuneytis sveitarstjórnarmála um skuldsetningu sveitarfélaga. Í þriðja lagi skal viðkomandi hitaveita starfa samkvæmt einkaleyfi sem hún hefur hlotið í samræmi við 30.– 32. gr. orkulaga, nr. 58/1967. Einkaleyfi er veitt ef ráðherra telur að fengnu áliti Orkustofnunar að hitaveitan verði þjóðhagslega hagkvæmt fyrirtæki, fullnægi hitaþörf viðkomandi svæðis og að eðlilegur og truflanalaus rekstur sé tryggður auk annarra atriða sem kveðið er á um í 2. mgr. 32. gr. orkulaga. Ef einkaleyfi er veitt staðfestir ráðherra gjaldskrá hitaveitu áður en hún tekur til starfa. Í fjórða lagi skal vera tryggt að fjárframlag ríkisins renni einvörðungu til þess að færa eiganda lágmarksarðsemi miðað við þá nýfjárfestingu sem þörf er á.

Virðulegi forseti. Þannig háttar til í þessum málum að eins og við vitum höfum við náð, sem betur fer, að hitaveituvæða mjög stóran hluta landsins. Eftir eru svæði sem hafa verið talin köld og/eða þar sem byggðir eru fámennar og dýrt er að fara til framkvæmda. Svo háttar til á nokkrum stöðum í sveitum landsins í dag að menn hafa fundið nægjanlegt vatn en vegna til dæmis íbúafjölda, fjarlægðar og kostnaðar við að leggja hitaveitu er verkefnið þeim ofviða.

Það hlýtur að vera markmið okkar til lengri tíma að auka og reyna að loka hringnum, ef maður getur orðað það sem svo, með því að hitaveitur séu á sem flestum stöðum á landinu. Því fylgja mikil lífsgæði íbúa og á að vera hluti af byggðaáætlun okkar og hefur jákvæð áhrif á byggðaþróun þegar fólk velur sér búsetu úti um land.

Það var því að frumkvæði nefndarinnar að ráðist var í að flytja þetta mál. Um það hefur tekist sátt við ráðuneytið og þverpólitísk sátt er um það í nefndinni. Við vitum að nokkur sveitarfélög bíða eftir afgreiðslu málsins. Ég legg til að málinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar.