145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.

607. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. ÍVN (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu fyrir hönd Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins. Hún er einföld og felur í sér að Alþingi álykti að skora á ríkisstjórnina að styðja við umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.

Tillagan var samþykkt á fundi Vestnorræna ráðsins í Grindavík í janúar 2016. Við sóttum um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu í ágúst 2014. Þetta er tímafrekt ferli. Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins tók umsókn okkar fyrir í apríl 2015 en þar var tekin sú ákvörðun að fresta afgreiðslu allra umsókna um áheyrnaraðild þar til á fundi ráðsins vorið 2017. Við erum því að endurnýja umsókn okkar núna og laga hana til og munum senda hana frá okkur að nýju í maí.

Mikilvægt er til að umsókn okkar hljóti brautargengi að hún njóti stuðnings frá þjóðþingum og ríkisstjórnum landanna þriggja. Þess vegna er tillagan lögð fram.

En hvers vegna er mikilvægt að Vestnorræna ráðið eigi áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu? Við teljum það gríðarlega mikilvægt. Við höfum á undanförnum árum í ráðinu lagt sérstaka áherslu á norðurslóðamálin. Umsókn okkar um áheyrnaraðild er liður að því. Við viljum að þjóðkjörnir fulltrúar landanna þriggja hafi meiri möguleika á að hafa áhrif á þá hluti sem eru að gerast varðandi Norðurskautsráðið. Það er hlutverk okkar sem kjörnir fulltrúar að gæta þess að réttindi og hagsmunir íbúa svæðisins séu í hávegum hafðir í störfum Norðurskautsráðsins. Þess vegna teljum við og leggjum áherslu á að kjörnir fulltrúar á norðurslóðum skipti sér af því hvað Norðurskautsráðið er að gera. Við höfum vakið athygli á þeim sjónarmiðum og reynt að beita okkur fyrir aukinni umræðu um lýðræði á norðurslóðum á undanförnum árum og höfum meðal annars tekið virkan þátt í ráðstefnum Arctic Circle og eins tileinkuðum við þema ráðstefnunnar í janúar í Grindavík því málefni og fjölluðum um það ásamt sérfræðingum víðsvegar að af norðurslóðum.

Við teljum að Vestnorræna ráðið geti lagt fram mikilvægt framlag í nefndir og vinnuhópa Norðurskautsráðsins varðandi þessi mál, varðandi réttindi íbúa svæðisins og sjálfbæra þróun sérstaklega.

Því óskum við eftir að tillagan fái hér brautargengi og ég vonast til að hún fái góða umfjöllun í utanríkismálanefnd Alþingis.