145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

kjördagur og málaskrá ríkisstjórnarinnar.

[15:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir tæpri viku, á þriðjudagsmorgni, áttum við formenn stjórnarandstöðuflokkanna fund með hæstv. forsætisráðherra að hans ósk þar sem farið var yfir málefnaupplegg og verkefni ríkisstjórnarinnar. Þar voru gefin fyrirheit um kosningar á hausti komanda og málaskrá en hvorugt hefur síðan litið dagsins ljós, upplýsingar um kjördag né heldur málaskrá af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Staðan í þinginu er nú sú að það er erfitt að finna mál til að setja á dagskrá. Í nefndum eru varla mál sem hægt er að funda um og enginn veit hvert hið brýna erindi er sem ríkisstjórnin telur sig eiga við þjóðina og réttlæti að hún sitji til hausts. Þegar svo bætist við að hún getur ekki útskýrt hvenær hún þorir að hitta kjósendur sína heldur áfram þetta vandræðaástand í stjórnmálunum sem er engum til sóma. Satt að segja er fyrir neðan virðingu þessarar stofnunar (Forseti hringir.) að við völd sé með ríkisstjórn sem getur hvorki sagt af hverju hún er til né (Forseti hringir.) hvenær hún þorir að hitta kjósendur sína.