145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

kjördagur og málaskrá ríkisstjórnarinnar.

[15:06]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað um hversu vandræðalegt það er að starfsáætlun þingsins sé óljós og að ekki hafi verið ákveðinn kjördagur á kosningum sem boðaðar hafa verið í haust. Við sem hér erum berum fyrst og fremst ábyrgð á starfi þingsins og vitum að ekki eru mjög margir dagar eftir af þessu þingi. Varðandi skipulag þess er full ástæða til að spýta í lófana en síðan skulum við ekki gleyma því að ekki er kosið fyrir okkur alþingismenn. Kosningar eru tæki fyrir þjóðina til að láta álit sitt í ljós. Auðvitað skuldum við þjóðinni kjördag og getum ekki látið hana bíða með óljósan kjördag einhvern tímann í haust.

Við berum okkur oft saman við Norðurlandaþjóðir og aðrar þjóðir um það hvernig við viljum vera en ég er ansi hræddur um að þetta ástand (Forseti hringir.) væri ekki liðið í nágrannalöndunum.