145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

kjördagur og málaskrá ríkisstjórnarinnar.

[15:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eftir því sem þingið vinnur lengur án þess að hafa kjördag, því hættara verður við því að dagsetning kosninga sem vitaskuld verður ákvörðuð af meiri hlutanum, reyndar ríkisstjórn, fari í það minnsta að líta út fyrir að vera einhvers konar tæki í pólitískum erindum. Það er mjög vont ef það gerist. Það er mjög vont jafnvel þótt það líti bara þannig út.

Þess vegna er afskaplega mikilvægt að við fáum að vita sem fyrst hvenær ríkisstjórn hyggst halda kosningar vegna þess að eftir því sem fram líða stundir verður erfiðara og erfiðara að eiga við þessa spurningu. Þar að auki er það alveg rétt sem hv. þingmenn hafa sagt hér á undan, það er sjálfsagt fyrir þjóðina að vita hvenær á að kjósa. Það snýst ekki um okkur þingmenn, en það getur haft mjög vond áhrif á þingstarfið eftir því sem tíminn líður og því er mikilvægt að við fáum að vita þetta sem fyrst.