145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

kjördagur og málaskrá ríkisstjórnarinnar.

[15:12]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki alveg andrúmsloftið og viðhorf ráðherranna hér á bekkjunum gagnvart okkur í salnum og hvað þá stjórnarmeirihlutans gagnvart okkur í minni hlutanum.

Hér eru lagðar fram fyrirspurnir og menn ákveða svo, rétt eins og þetta sé konfektkassi, hverjum þeir ætla að svara og hverjum ekki, geyma svo mánuðum skiptir að svara fyrirspurnum eins og hv. þm. Kristján L. Möller kom inn á.

Síðan stíga menn fram, hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra standa í tröppunum niðri og segja: Það verður kosið í haust. Fjármálaráðherra gengur meira að segja svo langt að segja okkur að tekið verði eitt löggjafarþing af þessu kjörtímabili, svo snemma verði kosið.

Samt geta menn ekki tilgreint kjördaginn og sagt: Á þessum tíma verður kosið og þetta eru málin sem við ætlum að klára fyrst.

Hvers konar stælar eru þetta? Af hverju geta menn ekki komið almennilega fram, lagt fram málaskrána, ákveðið kjördaginn og (Forseti hringir.) svarað fyrirspurnum? Þetta er ekkert flókið.