145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

kjördagur og málaskrá ríkisstjórnarinnar.

[15:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Vegna þess að hér er rætt um fyrirspurnir til ráðherra held ég að það stæði þeim næst sem kvarta undan að fyrirspurnum sé ekki svarað að skoða tölulegar staðreyndir í því efni. Ég geri ekki ráð fyrir að margir sem gegnt hafa ráðherraembætti hafi svarað jafn mörgum fyrirspurnum og sá sem hér stendur. Reyndar hefur stjórnarandstaðan sett sérstakt met í því að leggja fyrirspurnir fyrir ráðherrana. Þeim hefur verið svarað í áður óþekktum mæli. Ekki liggja fyrir jafn mörg svör eftir fyrri ríkisstjórnir og eftir þessa ríkisstjórn. Það eru bara ekki dæmi um annað eins.

Sá sem hér stendur hefur gert allt sem í hans valdi stendur til að bregðast við öllum fyrirspurnum sem til hans hefur verið beint, þar með talið hef ég skilað skriflegu svari og átt hér orðastað við hv. þm. Kristján Möller og sagt: Gott og vel, hv. þingmaður er ekki að fullu sáttur við svarið, við getum farið nánar yfir þessi mál í munnlegum fyrirspurnatíma. Það er bara sjálfsagt mál að koma því á dagskrá sem fyrst en þetta gerist ekki (Forseti hringir.) allt í einu.

Mönnum verður tíðrætt um það eftir hverju fólkið í landinu kallar. Ég held að fólkið í landinu kalli eftir annarri umræðu en þeirri þvælu sem gengur yfir þingsalinn. (Gripið fram í.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna