145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

upplýsingar kröfuhafa slitabúanna.

[15:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Fyrst nokkur orð um stjórnarflokkana, þingstörfin og framgang mála hér, bara þannig að það sé alveg skýrt. Stjórnarmeirihlutinn ætlar ekki að semja við minni hlutann um það hvað hann má gera og hversu lengi hann má starfa. Þessi umræða er komin algjörlega út af sporinu. Minni hlutinn í þinginu talar til meiri hlutans, þeirra 38 þingmanna sem hér styðja ríkisstjórnina, og segir: Þið eruð ekki að vinna að nógu merkilegum málum. Við erum bara ósammála þessum áherslum ykkar. Þið skuluð bara hætta. Ef þetta væri svona einfalt þá hefði ríkisstjórnin sem mynduð var hér 2009 aldrei komist á vegna þess að minni hlutinn var á móti henni. Hann var ekki hrifinn af áherslum hennar o.s.frv. Það þarf að fara að láta af þessum ótrúlega útúrsnúningi um lögmál hlutanna hér á þingi og lýðræðið á Íslandi.

Valdahlutföllin hér á Alþingi mótuðust í síðustu kosningum. Það getur vel verið að það sé erfitt fyrir suma að lifa með því, en þannig er það bara. Stjórnarflokkarnir hafa sagt að þeir ætli að starfa áfram á grundvelli þess samstarfssamnings, ríkisstjórnarsáttmála, sem gerður var, og að stefnt sé að kosningum í haust. Það getur vel verið að stjórnarandstaðan sé ósátt við þetta en það mun ekki breyta neinu. Það mun engu breyta um það hvernig stjórnarflokkarnir hyggjast halda sínum störfum áfram á þessu þingi þannig að það sé bara sagt. (Gripið fram í.)

Varðandi það hvaða úrræði eru til staðar til að berjast við framkvæmd skattamála á Íslandi, hvort færa þurfi skattyfirvöldum frekari verkfæri, þá munum við ekki láta okkar eftir liggja við að bregðast við athugasemdum sem koma frá ríkisskattstjóra eða eftir atvikum frá öðrum skattframkvæmdaraðilum, svo sem eins og skattrannsóknarstjóra. Ef það kann (Forseti hringir.) að vera til einhvers árangurs að fara fram á frekari upplýsingar frá aðilum eða frekari þvingunarúrræði þá mun það að sjálfsögðu koma til skoðunar.