145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

upplýsingar kröfuhafa slitabúanna.

[15:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hefði kosið að fá skýrara svar við spurningu minni en ræðu um þennan blessaða 38 þingmanna meiri hluta sem við erum öll búin að heyra allmörgum sinnum. Það er fullkomlega eðlilegt að þingmenn stjórnarandstöðunnar spyrji sig hvað sé í gangi þegar þeir eru boðaðir á fund, til að ræða kjördag fram undan og hvaða mál eigi að klára, þegar ekkert heyrist meira af þeim fundi. Það er fullkomlega eðlilegt að þingmenn stjórnarandstöðunnar spyrji sig: Var þessi fundur bara einhver draumur? Var þetta bara eitthvað sem gerðist ekki? Við höfum að vísu séð myndir af okkur á fundinum þannig að hann gerðist.

Ég hefði átt von á því að einhver svör kæmu fram. (Gripið fram í.) Þetta snýst ekkert um það að við teljum okkur eiga heimtingu á einhverju, heldur héldum við að við værum að taka þátt í samtali. Það gengur ekki að hæstv. ráðherra komi hér upp og setji ofan í við okkur fyrir það að vilja eiga þátt í því samtali. Það var tekið vel í það að eiga í slíku samtali.

Ég spurði hæstv. ráðherra hvort í snjóhengjunni kynnu að leynast aflandsfélög í eigu Íslendinga. Sú krafa hefur (Forseti hringir.) komið upp að þær upplýsingar verði gerðar opinberar. Þetta var meðal annars rætt á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun. (Forseti hringir.) Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvað honum fyndist um það. Mér þætti vænt um að fá svar við þeirri spurningu, herra forseti.