145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

orðspor Íslands vegna Panama-skjalanna.

[15:38]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki skilið hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að við ættum að vanda okkur þegar við værum að tala við fréttamenn og segja bara fallega hluti um Ísland. Mér þykir það svolítið einkennilegt í sjálfu sér.

Aðkoma fólks, og sér í lagi ráðamanna, að skattaskjólum þykir ekki vera sjálfsagt mál erlendis. Það er ástæða fyrir því að enn þann dag í dag eru að birtast greinar, tveimur vikum eftir að hneykslið reið yfir, um nákvæmlega þetta og hvernig Ísland er að takast á við þetta eða ekki að takast á við þetta.

Það er margt sem við þurfum að gera, siðbót þarf að verða innan stjórnmála til þess að við getum talist trúverðug. Eins og staðan er núna sé ég það ekki. Kosningar í haust, kannski. Málaskrá, mögulega. En það virðist ekki vera sérstaklega mikið í hendi.