145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

málaskrá ríkisstjórnarinnar.

[15:41]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra og svo hæstv. fjármálaráðherra enn í dag hafa lagt mikla áherslu í máli sínu undanfarið á hinn mikla og sterka þingmeirihluta sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa á Alþingi. Ég efast ekkert um það. Þegar spurt er um málaskrá og hvenær hún verði lögð fram, þá svara þeir: Við höfum sterkan meiri hluta og ætlum ekki að láta minni hlutann kúga okkur til eins eða neins. Allt gott með það. Ég hefði nú haldið að sá óróleiki sem hefur verið í þjóðfélaginu yrði til þess að við í þinginu reyndum að greiða einhvern veginn úr þessu og sýna fram á að við gætum unnið saman. Ég er alveg viss um að þegar málaskrá liggur fyrir verði stjórnarandstaðan mjög til umræðu um að afgreiða þau mál. Þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra að þessu: Er líklegt að margt í þessari málaskrá verði slík ágreiningsefni að reyna muni á þann mikla þingmeirihluta sem ráðherrarnir ítreka aftur og aftur? Er líklegt að ríkisstjórnin ætli að fara að leggja fram, í því andrúmslofti sem er úti í þjóðfélaginu, einhver mjög mikil ágreiningsmál? Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra að því.