145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

málaskrá ríkisstjórnarinnar.

[15:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Nei, ég held það nú ekki. Ég held að ríkisstjórnin mundi ekki fara að ráðum Jóhönnu Sigurðardóttur sem kom með nýtt fiskveiðistjórnarkerfi í lok maí og vildi klára það fyrir þinglok. Ég held að við mundum ekki gera svoleiðis.

Ég held heldur ekki að sú ríkisstjórn sem styðst hér við mikinn meiri hluta eins og rakið er mundi fara að ráðum ríkisstjórnar minni hlutans frá 2009 og leggja fram margar breytingar á stjórnarskránni til að klára á nokkrum vikum. Ég held að við mundum ekki gera eins og sú ríkisstjórn. Það mundum við ekki gera.

Ég skil ekki alveg hvers vegna svona margir eru í óvissu með þau mál sem við viljum leggja áherslu á vegna þess að það er komið fram yfir framlagningardag á þinginu. Af þeirri ástæðu eru hér margir tugir mála sem allt þingið þekkir. Þingmenn í einstökum nefndum þingsins þekkja þessi mál.

Á dagskrá á morgun er samgönguáætlun. Það væri gott ef við gætum afgreitt samgönguáætlun. Ég vona að það geti orðið einhver sátt um hana. Við reynum yfirleitt að vinna hana í sem mestri pólitískri samstöðu.

Ný mál eru mjög fá. Við höfum nefnt mál sem tengjast afnámi haftanna og eftir atvikum áskilur ríkisstjórnin sér auðvitað rétt til þess að koma með brýn mál og við gerum okkur grein fyrir því að betra er að meiri sátt sé um þau en minni.

Ástæðan fyrir því að ég er að tiltaka hér að það er góður meiri hluti á bak við ríkisstjórnina er ekki sú að sýna klærnar og að það verði látið sverfa til stáls, heldur til að minna á þá grundvallarreglu að á meðan að ríkisstjórn nýtur sterks meiri hluta á þinginu þá er alveg sjálfsagt að hún haldi áfram störfum. Alveg sjálfsagt.

Það eru afbrigði að ríkisstjórn með slíkan meiri hluta skuli ætla að stytta kjörtímabilið og boða til kosninga fyrr. (Forseti hringir.) Það er aðalatriðið.