145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

málaskrá ríkisstjórnarinnar.

[15:45]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að eitt það skynsamlegasta sem þessi ríkisstjórn hafi gert hafi einmitt verið að bregðast við því ákalli sem er hjá fólkinu vegna þess að það er vantraust á stjórnmálunum í landinu. Þess vegna hefði ég viljað óska þess að boðað hefði verið til kosninga strax. Ég var ekkert að spyrja um neina fortíðarsögu eða eitthvað svoleiðis. Ég er hundleið á þessum fortíðarsögum. Ég var að spyrja hvort von væri á einhverjum ágreiningsmálum núna. Ráðherrann segir nei. Hann á ekki von á því. Ég fagna því.

En mig langar til að spyrja ráðherrann, vegna þess að það er hamrað svo mikið á þingmeirihlutanum og þessi þingmeirihluti situr í umboði 51% þjóðarinnar: Hvað finnst hæstv. ráðherra um misvægi atkvæða í landinu? Er hann tilbúinn til að berjast með mér fyrir því að það verði jafnað?